Herdís Sveinsdóttir, prófessor og deildarforseti hjúkrunarfræðideildar við Háskóla Íslands segir að í lagi sé að nemendur, sem vinna með sjúklingum, fylgi reglum HÍ líkt og aðrir nemendur í tengslum við staðpróf og annað fyrirkomulag.

„Það hefur ekki farið framhjá mér að nemendur eru misánægðir með úrræðin sem við erum að beita í deildinni,“ skrifar Herdís í bréfi til nemenda dagsett 23. október.

Hluti hjúkrunarnema, sem eiga að taka klínískt próf á morgun í húsnæði Hjúkrunarfræðideildar, hafa lýst yfir áhyggjum yfir smithættu. Tæplega hundrað nemendur eiga að mæta í húsið til að taka próf í lyfjaútreikningi í barnahjúkrun en kennarinn segir nemendur ekki þurfa að hafa áhyggjur; nemendur verða í 20 manna hólfum og fylgt verður öllum sóttvarnarreglum.

„Ættu að sæta harðari reglum“

Nemendur segja er að þau séu að vinna með sjúklingum og ættu í raun að sæta harðari reglum en aðrir háskólanemar; staðkennsla og staðpróf eigi ekki að vera hjá nemendum sem stunda klínískt nám eða eru í klínískri vinnu.

„Við því hef ég ekki annað að segja en að við fylgjum leiðbeiningum og á hverjum tíma göngum við ekki lengra en þær segja til um,“ segir Herdís í svari til nemenda.

Hún ítrekar í bréfi sínu að hún hafi alla daga frá faraldri vegið metið annars vegar gæði námsins og hins vegar að öryggi nemenda og starfsfólks sé tryggt.

„Leiðarljós mitt varðandi öryggi eru tilmæli sóttvarnarlæknis, tilmæli HÍ og samráð við Landspítala. Ég hef þetta samráð við Landspítala út af þeim rökum nemenda að þeir séu í klínísku námi/starfi og ættu því síður að mæta í staðkennslu/próf.“

Nemendur hafa lýst yfir áhyggjum í kjölfar þess að Landspítalinn lýsti yfir neyðarstigi í fyrsta sinn og landlæknir ítrekaði mikilvægi þess að fleiri skrái sig á bakvarðarsveitir vegna álags í kjölfar hópsmits.