Mikil ör­tröð er nú í Leifs­stöð þar sem langar raðir hafa myndast í komusal og mikill fjöldi fólks er í miklu ná­vígi við hvort annað. Jón Gnarr, fyrr­verandi borgar­stjóri og grín­isti, greinir frá því á Twitter að hann sé meðal þeirra sem eru nú að bíða og segir hann stöppuna af fólki vera „skipu­lags­legt stór­slys.“

„Það má alls ekki þjóð­há­tíð en þetta er í lagi? Engin smit­hætta hér,“ skrifar Jón á Twitter og birtir með mynd­band af þvögunni þar sem fólk sést standa þétt saman. „Svona erum við búin að standa í klukku­tíma. Það er engin röð eða regla heldur treðst fólk bara. Þetta er sturlun.“

Reyna að draga úr raðamyndun

Stað­gengill upp­lýsinga­full­trúa Isavia, Grettir Gauta­son, greinir frá því í sam­tali við Frétta­blaðið að nú sé háanna­tími á flug­vellinum og því margir sem þurfa að bíða en tryggja þarf að allir séu með gögn á borð við bólu­setninga­vott­orð og nei­kvæð PCR-próf.

Mælst er til þess að fólk mæti sem fyrst til að draga úr raða­myndun og opnar öryggis­leitin til að mynda klukku­tíma fyrr á morgnanna heldur en vana­lega til að draga úr raða­myndun. Mis­munandi reglur eru eftir löndum og er það á á­byrgð flug­fé­laganna að far­þegar séu upp­lýstir.

Ísland orðið rautt

Tölu­verður fjöldi fólks kemur nú til landsins um þessar mundir þrátt fyrir að Ís­land sé orðið rautt land. Í­búum Ís­lands er ráðið frá ó­nauð­syn­legum ferða­lögum til á­hættu­svæða nema vera full bólu­sett.

Allir sem koma til landsins þurfa nú annað hvort að vera með vott­orð um bólu­setningu eða fyrri smit, eða að skila inn nei­kvæðu PCR-prófi og fara í tvær PCR-sýna­tökur við komuna til landsins með fimm daga sótt­kví á milli.

Í gær var tilkynnt um nýjar ráðstafanir á landamærunum sem taka gildi 16. ágúst en þá þurfa allir með íslenska kennitölu og aðrir með minnstu tengsl við landið að fara í skimun við komu.