Rúmlega 6300 manns eru búnir að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík nú um hálf fimmleytið í dag. Búist er við fyrstu tölum um klukkan sjö. Þetta staðfestir Kristín Edwald, formaður kjörstjórnar í samtali við Fréttablaðið.
Einn og hálfur tími er þar til kjörstaðir loka núna klukkan 18:00. Þrettán manns eru í framboði í prófkjörinu sem er sameiginlegt fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmi. Örtröð var á bílastæðinu við Valhöll þegar Fréttablaðið bar að garði nú síðdegis.
Ber hæst barátta Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, um fyrsta sætið. Greindi Fréttablaðið fyrst miðla frá því í vikunni að Guðlaugur hefði kært Áslaugu Örnu fyrir brot á prófkjörsreglum.
Kom fram í kjölfarið frá yfirkjörstjórn að ekki yrði aðhafst vegna málsins. „Niðurstaða yfirkjörstjórnar var mjög skýr, það var ekkert gert af því sem við vorum sökuð um,“ sagði Áslaug í gær.
Að sögn Kristínar er talning hafin og er búist við fyrstu tölum klukkan 19:00. Hefur hluti kjörstjórnar lokað sig inni á 2. hæð í Valhöll þar sem talning fer nú fram.
