Rúm­lega 6300 manns eru búnir að kjósa í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík nú um hálf fimm­leytið í dag. Búist er við fyrstu tölum um klukkan sjö. Þetta stað­festir Kristín Edwald, for­maður kjör­stjórnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Einn og hálfur tími er þar til kjör­staðir loka núna klukkan 18:00. Þrettán manns eru í fram­boði í próf­kjörinu sem er sam­eigin­legt fyrir bæði Reykja­víkur­kjör­dæmi. Ör­tröð var á bíla­stæðinu við Val­höll þegar Frétta­blaðið bar að garði nú síð­degis.

Ber hæst bar­átta Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur, dóms­mála­ráð­herra og Guð­laugs Þórs Þórðar­sonar, utan­ríkis­ráð­herra, um fyrsta sætið. Greindi Frétta­blaðið fyrst miðla frá því í vikunni að Guð­laugur hefði kært Ás­laugu Örnu fyrir brot á próf­kjörs­reglum.

Kom fram í kjöl­farið frá yfir­kjör­stjórn að ekki yrði að­hafst vegna málsins. „Niður­­­staða yfir­­­kjör­­stjórnar var mjög skýr, það var ekkert gert af því sem við vorum sökuð um,“ sagði Ás­laug í gær.

Að sögn Kristínar er talning hafin og er búist við fyrstu tölum klukkan 19:00. Hefur hluti kjör­stjórnar lokað sig inni á 2. hæð í Val­höll þar sem talning fer nú fram.

Mikil umferð er til og frá Valhöll í dag, á lokadegi prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Fréttablaðið/Aðalheiður