Berg­þór Óla­son, þing­maður Mið­flokksins, hefur stigið til hliðar sem for­maður um­hverfis- og sam­göngu­nefndar. Frá þessu var greint í morgun. Jón Gunnars­son, 1. vara­for­maður nefndarinnar, tók við formennsku.

Sjá einnig: Bergþór víkur sem formaður nefndarinnar

Spurður hvers vegna hann ákvað að víkja núna segir Bergþór að það hafi verið til að tryggja starfsfrið innan nefndarinnar.

„Það er til þess að tryggja starfsfrið sem er æskilegt að sé að finna í nefndinni. Það eru mörg stór mál fram undan,“ segir Bergþór Ólason í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Þetta er mitt lóð á þær vogarskálar að það geti verið það áfram. Með það fyrir augum að staðan verði skoðuð aftur í vor varðandi það hvort önnur uppstokkun verði gerð innan nefndarinnar,“ segir Bergþór.

Spurður hvers vegna hann hafi lagt til að Jón tæki við sagði hann það helst vera vegna þess að hann hafi gert það í hans fjarveru og hafi því reynslu af starfinu. Bergþór tók sér, eins og kunnugt er, tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum eftir að uppljóstrað var um Klaustursupptökurnar.

„Hann hefur gert það vel og af mikilli festu. Það er um tímabundna aðgerð að ræða, allavega til að byrja með og þá þótti mér eðlilegt að hann tæki við stjórninni og að Ari Trausti kæmi inn sem fyrsti varaformaður og Líneik sem annar varaformaður. Ég get ekki annað skynjað en að það sé almennt sátt um þetta nema meðal þeirra nefndarmanna sem lögðu til að Hanna Katrín tæki við formennskunni,“ segir Bergþór.

Bergþór segir það þó aldrei hafa verið raunhæfan valkost að Hanna Katrín, frá Viðreisn, tæki við formennsku í nefndinni í hans stað.

„Miðflokkurinn lítur svo á að hann hafi stjórn á þessari nefndarformennsku, eina af þremur [innsk.blm. nefndum] stjórnarandstöðunnar og í þessu tilviki ákváðum við að styðja við Jón Gunnarsson í formennsku hennar“ segir Bergþór.

Engar forsendur fyrir nefndarmenn að vera óróleg áfram

Spurður út í hvort heimilt sé að skipa formenn tímabundið, eins og minnihluti vill að forsætisnefnd athugi, segir Bergþór að ekki sé um formlegt samkomulag að ræða. Jón sé í raun skipaður formaður en á sama tíma verði það opið að kanna hvort endurskoða eigi þá kosningu í vor.

„Þetta er í raun ekki tímabundið. Það er kosinn nýr formaður og svo er mönnum frjálst hvenær sem er að kjósa formann. Það er enginn formfesting á þeim tímaramma heldur er verið að segja að við setjumst aftur yfir málin í vor og skoðum hver staðan er,“ segir Bergþór.

Mikill órói hefur verið innan nefndarinnar frá því að Bergþór sneri aftur á þing. Hann segist hins vegar ekki búast við öðru en að ró sé komin í nefndina og að samstarfið geti verið héðan í frá gott, eins og það hafi verið áður.

„Ég á ekki von á öðru en að samstarfið geti verið ágætt líkt og það hefur verið hingað til. Ég held að það sé komin ágætis ró í nefndina og þeir nefndarmenn sem eru órólegir verða að líta í eigin barm. Með þessari aðgerð var komið til móts við þau sjónarmið sem komu fram á fundinum þann 29. janúar síðastliðinn og ef það kemur á daginn að það voru ekki hin raunverulegu vandamál þá hefði verið kostur að þau sjónarmið kæmu fram fyrr. Ég held að það séu engar forsendur til þess að einhver hluti nefndarmanna sé órólegur í framhaldi af þessari ágætu niðurstöður sem var í morgun,“ segir Bergþór að lokum.