Meðlimir Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segja eldgosið í Meradölum lagst í dvala. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu hópsins í morgun.

„Í nótt hrundi gosóróinn í Meradölum alveg niður eftir að hafa verið á stöðugri niðurleið síðustu daga. Samhliða þessu virðist allur bjarmi hafa horfið úr gígnum um klukkan 5 í morgun. Afgösun úr gígnum er einnig sýnilegri mun minni en í gær og er gosopið því sennilega lokað,“ segir í færslunni á síðu hópsins.

„Má því nær fullyrða að goshlé sé hafið, en einungis tíminn einn mun leiða það í ljós hvort gosið komist aftur í gang. Áfram sést í litla hraunbráð í hraunbreiðunni austan gígsins, en líklega er það afgangsbráð úr hraunrásum neðanjarðar sem fundið hefur sér leið út. Miðað við gosóróann er ólíklegt að um sé að ræða „ferska“ kviku sem er að koma upp í gegnum gosrásina,“ segir ennfremur í færslunni.