Ljóst er að eld­gosinu við Fagra­dals­fjall er ekki lokið en í morgun tók órói í grennd við gos­stöðvarnar að vaxa og sást til glóandi kviku í gígnum. Ekki er út­lit fyrir að nýjar sprungur séu að myndast við gíginn þrátt fyrir að Veður­stofunni hafi borist á­bendingar um slíkt. Sam­kvæmt til­kynningu frá Veður­stofunni virðist þetta vera kvika sem rennur í lokuðum rásum undan gígnum og brýtur sér leið upp á yfir­borðið á nokkrum stöðum.

Fólki er bent að labba ekki á hrauninu þar sem að slíkar rásir geti opnast hvar sem er, án nokkurs fyrir­vara. „Eitt er víst, gosinu er ekki lokið!“ segir í lok til­kynningarinnar.

Hvað óróinn þýðir mun koma í ljós.
Mynd/Veðurstofa Íslands