Þorvaldur S. Helgason
thorvaldur@frettabladid.is
Laugardagur 26. mars 2022
21.00 GMT

Um miðjan mars­mánuð barst Frétta­blaðinu nokkuð sér­stakt bréf frá Ebbe Hol­m­boe, 75 ára dönskum eftir­launa­þega og fyrrum safn­stjóra danska Þjóð­minja­safnsins. Með bréfinu fylgdi frá­sögn þýdd á ís­lensku sem bar titilinn „Ör­lög Signe Sund­by“ og hófst svo:

„Á Ís­landi þekkja allir stóra fal­lega húsið Höfða í Reykja­vík. Staðurinn er víð­frægur síðan for­setar Sovét­ríkjanna og Banda­ríkjanna þeir Gor­bachev og Reagan héldu þar fund árið 1986 þar sem samið var um í lok kalda stríðsins.“

Frá­sögnin fjallar hins vegar ekki um sjálft húsið, heldur danska konu frá eyjunni Mön sem hét Signe Sund­by og var vinnu­kona í Höfða í byrjun 20. aldar fyrir franska konsúlinn Jean-Paul Brill­ouin, sem Höfði var byggður fyrir 1909. Undan­farin sex ár hefur Ebbe hjálpað af­kom­endum Signe Sund­by að reyna að komast að af­drifum þessarar dular­fullu konu sem enginn veit hvað varð um eftir 1913.

Ebbe segir leitina vera hluta af víð­tækri ætt­fræði­rann­sókn á fjöl­skyldu hans sem hefur staðið yfir í nærri þrjá­tíu ár:

„Þegar með­limur fjöl­skyldunnar er ætt­leiddur er það alltaf heillandi að komast að því hverjir voru líf­fræði­legu for­eldrarnir. Einn með­limur fjöl­skyldunnar bað mig um að hjálpa sér að komast að því hver líf­fræði­legur afi hennar og amma voru og ég komst að raun um það,“ segir Ebbe.

Ebbe Holmboe hefur reynt að púsla saman fjölskyldusögunni undanfarin þrjátíu ár en örlög Signe Sundby eru stærsta ráðgátan hingað til.
Mynd/Aðsend

Send út til að eiga barnið

Um­rædd afi og amma voru Jean-Paul Brill­ouin og Signe Sund­by, sem eignaðist barn konsúlsins í lausa­leik árið 1912. Signe var send utan til að eiga barnið og fæddi heil­brigt stúlku­barn á Ríkis­spítalanum í Kaup­manna­höfn í júlí 1912. Signe sam­þykkti að gefa barnið til ætt­leiðingar og fram kemur í skjölum að það hafi verið ætt­leitt af dönskum heldri borgurum. Grípum inn í frá­sögn Ebbe:

„Þótt undar­legt sé kom Signe til baka til Reykja­víkur og byrjaði sín fyrri störf hjá fjöl­skyldunni í Höfða. Eftir ein­hvern tíma sá hún sár­lega eftir því að hafa gefið dóttur sína og Jean-Pauls til ætt­leiðingar og skrifaði í júní 1913 yfir­völdum í Kaup­manna­höfn bréf og vildi ó­gilda ætt­leiðinguna.“

Um­rætt bréf er varð­veitt í ríkis­skjala­safni Dan­merkur og dag­sett 12. júní 1913 í Reykja­vík. Þar biðlar Signe til borgar­yfir­valda um að fá barnið sitt aftur en að sögn hennar var ætt­leiðingin leyni­leg svo hún hafði í raun ekki hug­mynd um hvaða fólk fékk barnið hennar.

„Nú biðla ég til herra amt­manns hvort ég geti dregið orð mín til baka. Hef ég ekki rétt á að fá barnið mitt aftur!“ skrifar Signe.

Allt kom þó fyrir ekki og yfir­völd neituðu að ó­gilda ætt­leiðinguna í ljósi þess að Signe hefði undir­ritað sam­komu­lagið um ætt­leiðinguna af fúsum og frjálsum vilja í viður­vist votta. Signe fékk bréf þess efnis sent í ágúst 1913 á meðan hún bjó enn í Höfða, sem hefur án efa verið henni reiðar­slag.

Bréf Signe Sundby til borgaryfirvalda Kaupmannahafnar er varðveitt í ríkisskjalasafni Danmerkur.
Myndir/Ebbe Homboe

Hann átti ekkert stór­kost­legan feril og ég held að hann hafi glímt við margar hindranir í sínu starfi.


Em­bættis­maður í ævin­týra­hug

Víkjum sögunni að konsúlnum. Jean-Paul Brill­ouin (1875-1946) var stór­huga maður sem gekk mis­vel í sínu starfi. Hann flutti til Reykja­víkur árið 1908 og í tíma­ritinu Ísa­fold þann 18. júlí sama ár er þess getið að hann hafi siglt til Ís­lands með gufu­skipi frá Kaup­manna­höfn, hvar hann gegndi áður stöðu að­stoðar­konsúls í franska sendi­ráðinu. Fjöl­skylda Jean-Pauls fylgdi honum eftir ein­hverju síðar. Seinni eigin­kona hans, Martha Gudrun (f. 1885), dóttir þeirra, Ragna Alice Elodi­e (f. 1907), tengda­móðirin Ragna Emali­e Grön­stad (1853) og svo auð­vitað þjónustu­stúlkan, Signe Sund­by (f. 1885), sem vann fyrir fjöl­skylduna í Kaup­manna­höfn.

Ferill Jean-Pauls á Ís­landi varð ekki ýkja langur því ára­mótin 1911-12 var hann leystur frá störfum vegna á­greinings við franska utan­ríkis­ráðu­neytið og annar konsúll ráðinn í hans stað. Það vakti at­hygli að hann fékk að búa á­fram í Höfða á­samt fjöl­skyldu sinni og þjónustu­liði eftir að hafa látið af störfum. Í kjöl­far þess reyndi Jean-Paul fyrir sér með ýmsum við­skipta­ævin­týrum á borð við það byggja höfn í Þor­láks­höfn og gúanó­verk­smiðju í Vest­manna­eyjum, en ekkert varð úr þeim hug­myndum.

Ebbe Hol­m­boe fór til Parísar og náði að púsla saman ævi Jean-Pauls með hjálp skjala­safns franska utan­ríkis­ráðu­neytisins og hefur hún þetta að segja um konsúlinn: „Hann átti ekkert stór­kost­legan feril og ég held að hann hafi glímt við margar hindranir í sínu starfi. Ég er ekki viss um að hann hafi verið auð­veldur í sam­skiptum, en ég veit það ekki.“

Jean-Paul flutti aftur til Frakk­lands á­samt fjöl­skyldu sinni haustið 1913 og var þá kominn í mikil fjár­hags­vand­ræði eftir mis­lukkuð við­skipta­ævin­týri árin áður. Hann var ráðinn að­stoðar­konsúll í Santiago de Cuba á Kúbu en var kallaður í franska herinn þegar fyrri heims­styrj­öldin braust út. Eftir að hafa gegnt her­þjónustu í eitt ár dvaldi Jean-Paul í stuttan tíma í Kristian­sand í Noregi en flutti loks með fjöl­skylduna til Kúbu 1918 þar sem hann endaði ferilinn og lést árið 1946, 71 árs að aldri.

Engar myndir hafa fundist af Signe Sundby en á þessari mynd frá 1911 má sjá Brillouin fjölskylduna spóka sig í Reykjavíkurhöfn. Frá vinstri: Jean-Paul, óþekktur maður, Ragna Alice Elodie, Martha Gudrun og Ragna Emilie Grønstad.
Mynd/Þjóðminjasafn Íslands

Slóðin hverfur á Ís­landi

Í gegnum rann­sóknir sínar hefur Ebbe tekist að varpa nokkuð skýru ljósi á ævi Jean-Pauls Brill­ouin sem og dóttur hans og Signe. Af­kom­endurnir vilja enn sem komið er halda nafni hennar leyndu en vitað er að dóttirin lifði löngu og far­sælu lífi í Dan­mörku og eignaðist fjöl­skyldu sem úr varð sá leggur er Ebbe þekkir til. Dóttir Signe og Jean-Pauls lést árið 2001, 89 ára að aldri og þótt hún hafi vitað hverjir líf­fræði­legir for­eldrar hennar voru reyndi hún ekki sjálf að komast að af­drifum þeirra.

Slóð Signe Sund­by hverfur á Ís­landi árið 1913, um það leyti er barns­faðir hennar flytur aftur til Frakk­lands. Ebbe hefur undan­farin ár leitað upp­lýsinga um Signe bæði í dönskum og frönskum skjala­söfnum án nokkurs árangurs.

„Það furðu­lega er að ég get ekki fundið neitt um hana hér í Kaup­manna­höfn. Mér hefur oft lánast að finna upp­lýsingar um látið fólk í Kaup­manna­höfn en ég get ekki fundið hana. Og það sem er ekki síður furðu­legt er að ég ræddi við barna­barn einnar systur hennar sem hafði ekki einu sinni heyrt minnst á hana. Hún hafði heyrt sögur af hinum systrum ömmu sinnar en ekki Signe.“

Lík­legasta at­burða­rásin er sú að Signe hafi snúið aftur til Dan­merkur eftir að Jean-Paul flutti til Frakk­lands en ó­mögu­legt er að sann­reyna það því far­þega­listarnir frá skipa­ferðum Eim­skips á þessum tíma brunnu í elds­voða. Ebbe segist þó vera með fjórar til­gátur um ör­lög Signe:

„Hún gæti hafa snúið aftur til Dan­merkur. Það er skrýtið að ég skuli ekki geta fundið hana. Það er auð­vitað senni­legasta skýringin en ég er ekki viss. Hún gæti hafa tekið sitt eigið líf vegna von­brigða. Þá gæti hún hafa gifst á Ís­landi, ein­hvers staðar annars staðar en í Reykja­vík. Loka­til­gátan er sú að hún gæti hafa flust með Ís­lendingum til Kanada eða Banda­ríkjanna í vestur­ferðunum.“


Ég held að ein­hvers staðar á Ís­landi, mögu­lega á ein­hverju dvalar­heimili fyrir aldraða, sitji kona eða maður sem getur hjálpað okkur.


Lykillinn að ráð­gátunni er hér

Ekkert bendir til þess að Signe hafi flust með Brill­ouin fjöl­skyldunni til Kúbu enda sýna far­þega­listar skipanna sem þau sigldu með einungis nöfn Jean-Pauls, Mörtu Gudrunar og Rögnu Alice. Þá kemur hvorki fram í þeim ís­lensku kirkju­bókum sem Ebbe hefur skoðað að Signe hafi gifst né látist í Reykja­vík, þótt það úti­loki vissu­lega ekki að hún hafi gert það annars staðar á landinu.

Þannig að það er næstum eins og Signe hafi horfið af yfir­borði jarðar eftir 1913?

„Já, ná­kvæm­lega. Ég vona að ein­hvers staðar á Ís­landi sé manneskja sem viti eitt­hvað um málið. Ég var í sam­bandi við ungan Ís­lending sem sagði mér að hann hefði heyrt þessa sögu frá ömmu sinni. Það var til um­ræðu í Reykja­vík á sínum tíma að konsúllinn hefði eignast barn með þjónustu­stúlku sinni og þótti nokkurt hneyksli.“

Ebbe bindur einna helst vonir við að af­kom­endur ís­lenska vinnu­fólksins sem vann með Signe í Höfða á þessum tíma viti eitt­hvað en þau hétu Sig­ríður Magnús­dóttir (1889-1951) og Sigurður Guð­munds­son (1889-1920).

„Ég held að ein­hvers staðar á Ís­landi, mögu­lega á ein­hverju dvalar­heimili fyrir aldraða, sitji kona eða maður sem getur hjálpað okkur. Ég er viss um það. Ekki síst vegna á­huga Ís­lendinga á ætt­fræði,“ segir Ebbe að lokum.

Þeim sem telja sig geta varpað ein­hverju ljósi á ör­lög Signe Sund­by er bent á að hafa sam­band við blaða­mann á tsh@fretta­bladid.is.

Signe Sundby bjó og starfaði í Höfða fyrir Brillouin fjölskylduna í byrjun 20. aldar.
Fréttablaðið/Anton Brink
Athugasemdir