Óvissa ríkir um örlög Reykjavíkurmaraþonsins sem fara átti fram 22. ágúst. Fyrir helgi stóð enn til að hlaupið færi fram þrátt fyrir heimsfaraldurinn, en með breyttu sniði í samráði við almannavarnir. Til greina hefur meðal annars komið að skipta þátttakendum í hópa.

Í ljósi þeirra takmarkana á samkomum sem tóku gildi í gær, gæti þurft að endurskoða ákvörðun um að halda hlaupið. Samkvæmt upplýsingum frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem heldur utan um hlaupið, hefur verið boðað til fundar með helstu forsvarsmönnum þess á þriðjudaginn.

Fjölmörg góðgerðafélög njóta góðs af hlaupinu og verði því aflýst mun það hafa áhrif á fjárhag þeirra vegna styrkja sem komið hafa í gegnum áheit á hlaupara.