Örlítið færri hafa látist á Íslandi það sem af er ári miðað við meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára. Á fyrstu 44 vikum ársins hafa dáið að meðaltali 43,2 í hverri viku en meðaltal áranna 2017 til 2019 eftir fyrstu 44 vikur hvers árs var 43,3.

Þetta kemur fram í nýbirtu talnaefni Hagstöfunnar. Að jafnaði dóu flestir í aldursflokknum 85 ára og eldri yfir tímabilið 2017 til 2019. Sá aldursflokkur var einnig algengastur í ár.

Tíðasti aldur látinna það sem af er ári var 83 ára en var 87 ára fyrir sama tímabil síðustu þriggja ára.