Nýting þessara húsa hefur verið minni en annarra orlofskosta starfsfólks,“ segir Breki Logason, stjórnandi Samskipta og samfélags hjá Orkuveitu Reykjavíkur, um sölu fyrirtækisins á fjórum sumarhúsum á bakka Úlfljótsvatns nærri Steingrímsstöð.

Með í kaupunum fylgja bátar, 50 fermetra bátaskýli og 3,6 hektara eignarland „á frábærum stað við Úlfljótsvatn“ eins og sagði í lýsingu á eignunum þegar þær voru auglýstar til sölu í einu lagi um miðjan október.

Um ástæðu þessu að nýting sumarhúsanna hafi verið minni en í öðrum sumarhúsum sem standa starfsfólki Orkuveitunnar til boða segir Breki að þær séu líklega helstar þær að aðkoma geti verið erfið á vetrum.

„Þarna er ekki hitaveita og hugsanlegt er að einhver hafi sett fyrir sig lúsmýið, sem bæst hefur við annað mý við vatnið síðustu ár,“ útskýrir hann enn fremur.

Reyndar var ekki minnst á lúsmý í sölulýsingunni en væntanlegum kaupendum þó bent á vandkvæði með aðkomu að húsunum sem standa út af fyrir sig í landi Straumness við norðanvert Úlfljótsvatn nokkuð vestan Steingrímsvirkjunar.

„Kaupanda er ljóst að viðhald og rekstur vegarins, þar með talin vetrarþjónusta, er á hans ábyrgð,“ var undirstrikað í sölulýsingunni.

Húsin standa við Úlfljótsvatn.
Mynd/Fasteignasalan Miklaborg

Þá upplýsir Breki að leiguverðið fyrir hvern bústað til starfsmanna hafi verið 12.500 krónur frá fimmtudegi til sunnudags yfir vetrartímann en 20.000 krónur vikan á sumrin. Önnur hús hafa ekki verið keypt í staðinn en það hefur þó verið boðað.

„Við upplýstum stjórn jafnframt um að til stæði að kaupa önnur orlofshús í staðinn, sem munu þá nýtast STOR [Starfsmannafélag OR] betur. Við höfum ekki ákveðið hvernig við stöndum að leit að orlofshúsum. Einhvers konar könnun á vilja starfsfólks og óskum um landshluta gæti til dæmis verið undanfari kaupa. Meira um það síðar,“ sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, í pósti til starfsfólks í vikunni.

Bústaðirnir voru endurnýjaðir að innan árið 2015.
Mynd/Fasteignasalan Miklaborg

Fasteignasalan Miklaborg sem annaðist söluna mat verðmæti eignanna að sögn Breka upp á 70 til 75 milljónir króna, þó að frátöldu bátaskýlinu sem síðan fylgdi með í kaupunum.

Hæsta tilboðið, 110 milljónir króna, hafi borist frá Atl ehf. – sem er félag Atla Þorbjörnssonar – sem síðan hafi gengið að gagntilboði Orkuveitunnar upp á 115 milljónir króna. Atli er annar tveggja eigenda hugbúnaðarhússins Gang­verks.

Staðsetning sumarhúsanna og landsins er að sönnu frábær við norðanvert Úlfljótsvatn og skammt frá suðurenda Þingvallavatns. Silungsveiði er í Úlfljótsvatni.

Þrjú húsannna eru í góðu ásigkomulagi og voru endurnýjað að innan fyrir sex árum. Heitir pottar eru á veröndum húsanna sem eru á bilinu 53 til 58 fermetrar. Fjórða húsið og það minnsta er hins vegar í niðurníðslu.