Miklar verðhækkanir á matvörumarkaði í kjölfar stríðsins í Úkraínu hafa leitt til þess að samsetning matarkörfunnar er að breytast. Fólk virðist almennt mjög meðvitað um ástandið og tilbúið að breyta neyslumynstri sínu í takt við sveiflur á verðlagi.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir að ekki hafi borið á neinum vöruskorti enn sem komið er, en helstu áhrif stríðsins séu þessar miklu verðhækkanir.

„Það dynja á okkur hækkanir í nær öllum vöruflokkum. En það sem er kannski áhugavert er hvernig okkar viðskiptavinir bregðast við þegar svona mikil hreyfing er á bæði vöruframboði og verði. Fólk er almennt mjög meðvitað um þessi mál og við sjáum það til dæmis á okkar gögnum að þegar verð hækkar á ákveðnum vörum þá breytist samsetning matarkörfunnar í samræmi. Fólk grípur aðrar vörur úr hillunum en það hefði annars gert, þegar verðið fer yfir ákveðinn sársaukaþröskuld.“

Þar af leiðandi sé það hlutverk kaupmanna, að mati Sigurðar, að laga vöruframboðið að þessum sveiflum og þörfum viðskiptavina.

„Ef ákveðnar vörur hækka það mikið að kúnninn hættir að kaupa þær þá bregðumst við auðvitað við og skiptum þeim út. Þetta gerist alla jafna sjálfkrafa en ástandið núna gerir það að verkum að það er óvenjumikil hreyfing á öllu vöruframboði.“

Sigurður segir næstu mánuði einkennast af áframhaldandi óvissu. Kaupmenn séu enn í miðri á og reyni eftir bestu getu að laga sig að stöðunni.

„Það hefur komið á daginn að stríðið í Úkraínu hefur haft víðtækari áhrif en margir töldu í fyrstu. Staðan myndi til dæmis breytast heilmikið ef útflutningur á korni færi aftur af stað. Við sáum það bara á viðbrögðum á heimsmarkaði þegar skrifað var undir samkomulag þess efnis nýverið. En svo hrökk það aftur í baklás þegar Rússar virtu samkomulagið að vettugi.“

Fljótlega eftir að stríð braust út í Evrópu var talað um að ástandið gæti leitt til skorts í ákveðnum vöruflokkum. Sigurður segir þær spár ekki hafa ræst enn sem komið er.

„Við erum ekki komin þangað. Það hefur enginn þurft að hlaupa upp til handa og fóta og hamstra vörur. Við fáum allar þær vörur sem við viljum en það eru bara þessar gríðarlegu verðhækkanir sem við þurfum að vakta og laga okkur að.“

Að sama skapi segir Sigurður ljóst að fyrirsjáanlegur orkuskortur í löndum eins og Þýskalandi muni hafa áhrif á framleiðslu á neysluvöru.

„Þessar nýjustu þvinganir Rússa munu teygja anga sína hingað til okkar um leið og fer að bera á verulegum orkuskorti í Evrópu. Margt af því sem við notum dagsdaglega er háð orkufrekum iðnaði. Ef kemur til skammtana á orku í stórum framleiðslulöndum þá mun það framkalla hökt í allri keðjunni. Orkuskortur í Þýskalandi, sem er risastórt framleiðsluland, myndi til dæmis hafa víðtæk áhrif um alla Evrópu hvað vöruframboð varðar,“ segir Sigurður.