Þingfundi lauk á sjötta tímanum í morgun eftir að þriðji orkupakkinn hafði verið ræddur í alla nótt. Enn eru fimm þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá og verður málið því aftur til umræðu á þingfundi sem hefst klukkan 13:30 í dag.

Umræðan um þriðja orkupakkann hófst síðasta þriðjudag og var svo haldið áfram á miðvikudaginn þar sem þingfundur stóð til klukkan 06:10. Umræðan hélt svo áfram í gær og má segja að þingmenn Miðflokksins hafi verið áberandi í umræðunni en eins og mbl.is greindi frá stigu þingmenn flokksins 251 sinni í pontu í gær á meðan þingmenn annarra flokka stigu alls 36 sinnum í pontu.

Á mælendaskrá um málið bíða þeir Þorsteinn Sæmundsson, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Miðflokksins, eftir að flytja sína fjórðu ræðu um málið. Í samtali við Fréttablaðið í dag gat Ólafur ekki sagt til um hvenær umræðum um málið myndi ljúka eða hvort búast mætti við að þær myndu aftur standa fram á nótt. Þá eru Bergþór Ólason og Birgir Þórarinsson einnig á mælendaskrá og bíða þess að flytja sína sjöundu ræðu um málið.