Málþóf Miðflokksins um þriðja orkupakkann er orðið næst lengsta málþófið á Alþingi þegar horft er á síðustu þrjátíu ára. Það nálgast óðfluga málþófið vegna Icesave-málsins.

Þetta kemur fram í svörum frá skrifstofu Alþingis. Þingmenn höfðu klukkan hálf fimm, síðdegis í gær talað um þriðja orkupakkann í 101 klukkustund og 22 mínútur. Þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í meira en 90 klukkustundir.

Þingfundi á Alþingi í gær lauk á sjötta tímanum í morgun og bætast því um það bil 13 stundir við, að frádregnu kvöldmatarhléi. Miðflokksmenn hafa því talað í um 114 klukkustundir um málið.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis var umræðan um Icesave-reiknigana árið 2010 135 klukkustundir. Það er lengsta málþóf sem ráðist hefur verið í.

Í þriðja sæti er umræðan um EES sem rædd var veturinn 1992-1993. Sú umræða tók rétt rúmar 100 klukkustundir.

Fjárlög voru árið 2016 rædd í 97 klukkustundir og útvarpslög og samkeppnislög voru rædd í 82 stundir veturinn 2003-2004.

Ekkert fararsnið virðist vera á þingmönnum Miðflokksins. Varaforseti Alþingis, Bryndís Haraldsdóttir, sleit þingfundi skömmu fyrir klukkan sex í morgun „með sorg í hjarta“ eins og hún komst sjálf að orði. Þá hefur Steingrímur J. Sigfússon bent Miðflokksmönnum á að frelsi þeirra til að ræða málið megi ekki bitna á frelsi annarra þingmanna til að ræða önnur mál. Fjölmörg önnur mál bíða nú afgreiðslu fyrir sumarfrí.