Raforkuvinnsla á Íslandi á síðasta ári nam 19.489 gígavattsstundum (GWh) sem er 1,7 prósenta samdráttur frá fyrra ári. Þetta kemur fram í greinargerð raforkuhóps Orkuspárnefndar.

Notkun stórnotenda var 15.146 GWh og minnkaði um 0,7 prósent milli ára. Mestur var samdrátturinn hjá álverum, eða 444 GWh. Fram kemur í greinargerðinni að það megi að mestu leyti rekja til rekstrarerfiðleika álversins í Straumsvík.

Einnig var samdráttur hjá öðrum eldri stórnotendum og nam hann 229 GWh. Á móti kemur að notkun nýjustu stórnotendanna jókst um 560 GWh. Um þrjá fjórðu hluta þeirrar aukningar má rekja til gagnavera.

Almenn raforkunotkun minnkaði milli ára um 195 GWh, eða 4,7 prósent. Ástæður þess má meðal annars rekja til þess að hitastig í Reykjavík var 0,7 gráðum hærra en árið áður sem leiddi til minni notkunar raforku um 45 Gwh.

Þá er samdráttur upp á 84 GWh rakinn til loðnubrests en fiskimjölsverksmiðjur eru orkufrekasta almenna iðnaðarstarfsemin á Íslandi. Orkutap við flutning raforku var alls 366 GWh sem er 32 GWh minna en árið áður.