Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að Vinstri græn muni fá eitthvað fyrir sinn snúð ef flokkurinn missir heilbrigðisráðuneytið í nýrri ríkisstjórn. Formenn stjórnarflokkanna þriggja funduðu stíft um helgina og er byrjað að skrifa stjórnarsáttmála.

Stefanía ræddi stöðuna við Elínu Hirst í Fréttavaktinni.

„Það lá fyrir í aðdraganda kosninganna að fengju flokkarnir þrír meirihluta þá væri mjög líklegt að þeir héldu áfram samstarfinu, það gekk eftir, þeir fengu meirihluta og bættu við sig. Það var einkum Framsóknarflokknum að þakka, það þýðir að vigt þeirra jókst. Við eigum eftir að sjá hvernig,“ segir Stefanía.

„Það lá líka fyrir í aðdraganda kosninga að ef áframhaldandi ríkisstjórn héldi að það væru mjög miklar líkur á því að Katrín Jakobsdóttir yrði áfram forsætisráðherra. VG hafa verið með ráðherra í ríkisstjórninni og það má búast við því að þeir verði áfram með þrjá ráðherra. Forsætisráðuneytið er mikilvægt ráðuneyti því að forsætisráðherra fer með verkstjórn, en ræður ekki yfir öðrum ráðherrum en er talsmaður ríkisstjórnar út á við.“

Stefanía bendir á að innan raða Vinstri grænna hafi samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn verið umdeilt. „Það hafa ýmsir sett fyrirvara við áframhaldandi samstarf. Komi Katrín með stjórnarsáttmála og ráðherrastóla til samtals við grasrótina sem felur í sér að forsætisráðherrastólinn og önnur mikilvæg ráðuneyti, til dæmis umhverfis- og velferðarmál, þá er sigurinn unninn. Ég myndi fullyrða að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn geri sér grein fyrir því,“ segir hún.

Frettavaktin_2021_45_MAN_.00_07_01_03.Still079.jpg

„Það hefur hins vegar verið tal um endurnýjun og að kosningasigur Framsóknarflokksins kalli á fleiri ráðuneyti, þeir fái þá nýjan ráðherrastól. Það kann að vera að mikilvæg verkefni verði færð í ný ráðuneyti sem Framsóknarmaður mun stýra, það hefur verið talað í þá átt.“

Orkumálum pakkað inn í umbúðir

Áherslur í kosningabaráttunni kunna að skýra hvers vegna viðræðurnar taka svo langan tíma. „Vinsældir ríkisstjórnarinnar, sem er líklegast að halda áfram, þær skýrast meðal annars af því að ríkisútgjöld jukust í velferðar- og menntamálum. Þarna hafa tekist á sjónarmið um algjörlega opinbert kerfi eða einhvers konar einkarekstur, það var samhljómur hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum um einkarekstur og mig grunar að við sjáum útfærslur í þeim efnum í nýjum stjórnarsáttmála.“

Það kunna að verða ráðherraskipti í heilbrigðisráðuneytinu. „En þó þannig að VG sætti sig við.“

Hálendisþjóðgarður var einnig umdeildur á síðasta kjörtímabili. „Það hlýtur að nást einhver lending þannig að þjóðgarður verði að raunveruleika en með aðkomu sveitarfélaganna.“

Enn stærra mál er svo áhersla Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á frekari virkjanaframkvæmdir í tengslum við orkuskipti, Stefanía telur að Vinstri græn þurfi þar að gefa eftir. „Þetta verður pakkað inn í umbúðir um sjálfbærni, endurnýjanlega orku og að minnka losun.“

Varðandi mögulega uppkosningu í Norðvesturkjördæmi segir Stefanía það vera helmingslíkur á því. „Það kallar á ákveðinn undirbúning en hann verður ekki mjög langur. Það er bæði með þetta mál innan nefndarinnar og með stjórnarsáttmálann að menn hafa haldið spilunum mjög þétt að sér þannig að við vitum ekki alveg hvernig fer.“