Á fundi orkumálaráðherra Evrópusambandsins, sem fram fór í gær, var ákveðið að skattleggja orkufyrirtæki enn frekar til að stemma stigu við háu orkuverði í kjölfar stríðsins í Úkraínu.

Þá er útlit fyrir að víða þurfi að draga úr raforkunotkun á álagstímum á næstu mánuðum. Útbreiddur orkuskortur er farinn að plaga lönd sem eru háð jarðgasi og orku frá Rússlandi.

Samtals hafa Evrópulöndin varið hátt í 518 milljörðum evra í efnahagsaðgerðir sem ætlað er að draga úr áhrifum orkukreppunnar.

Forsætisráðherra Bretlands kynnti í vikunni áform um 167,7 milljarða evra efnahagspakka vegna stöðunnar þar í landi. Forsætisráðherra Póllands kynnti sömuleiðis 10,6 milljarða evra efnahagspakka og í Svíþjóð á að verja opinber veitufyrirtæki með lánaábyrgð upp á 23,4 milljarða evra.

Í Hollandi hafa stjórnvöld sett þak á raforkuverð til að koma í veg fyrir frekari hækkanirnar. Talið er að sá pakki muni kosta hollenska ríkið hátt í 17,2 milljarða evra.

Þá hefur franska ríkið þegar varið 72 milljörðum evra til að verja heimili og fyrirtæki landsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir þessar aðgerðir í Evrópu varpa ljósi á hvað við Íslendingar séum lánsöm í orkumálum.

„Og það getum við þakkað þeim sem sýndu framsýni og stórhug og veðjuðu á hitaveitu frekar en olíu og gas á sínum tíma.“

„En þótt við séum á góðum stað þá megum við ekki sofna á verðinum. Við værum á enn betri stað en við erum í dag ef við værum komin lengra í þriðju orkuskiptunum.“

Yfirvofandi orkukreppa í Evrópu varpi þó ákveðnu ljósi á stöðu Íslands gagnvart öðrum löndum í viðskiptalegu tilliti að mati Guðlaugs

Fréttablaðið/Graphic News

„Til skamms tíma eru ríki, sem eru háð Rússlandi um orku, að leita allra leiða til að verða sér úti um orku. En til lengri tíma eru þau líka að færa sig hraðar yfir í grænni lausnir.

Þar eru tækifæri fyrir okkur því þetta snýst ekki bara um að búa til orku, heldur líka um hugvit og tækni. Þar stöndum við framarlega.“

Þótt stríðið hafi ekki áhrif á orkuverð á Íslandi þá förum við ekki varhluta af efnahagsólgunni í álfunni, að sögn Guðlaugs.

„Þetta hefur áhrif á afkomu fyrirtækja sem selja orku til álvera til að mynda. Vegna hækkana á heimsmarkaðsverði. Við höfum alveg fengið okkar skerf af því, bæði í formi skatta og arðs, til dæmis í gegnum Landsvirkjun.

En á móti kemur að hátt orkuverð í nágrannalöndunum er aldrei góðar fréttir fyrir okkur. Verri lífskjör í helstu viðskiptalöndum bitna á okkar helstu útflutningstekjum. Hvort sem við erum að tala um fisk eða ferðaþjónusta. Þannig að þetta er blanda af tækifærum og áskorunum um þessar mundir,“ segir Guðlaugur Þór.