Staðan í stjórnar­myndunar­við­ræðum er við­kvæm sem stendur. Flestum í hópi þing­manna flokkanna þriggja sem nú eiga í við­ræðum ber þó saman um að meiri líkur en minni séu á að Sjálf­stæðis­flokki, Fram­sóknar­flokki og VG muni takast að skipa nýja ríkis­stjórn.

Stjórnar­myndunin fer fram í skugga ó­vissu vegna hnökranna á fram­kvæmd kosninganna í Norð­vestur­kjör­dæmi. Eigi að síður hafa mörg stór mál verið rædd en ekki endi­lega út­kljáð.Stærstu á­greinings­málin eru sögð orku­mál og skattar.

Skatta­málin eru sögð sér­lega við­kvæm, því Sjálf­stæðis­menn boðuðu skatta­lækkun fyrir kosningar en staða ríkis­fjár­mála er sam­kvæmt þing­mönnum úr öðrum flokkum fremur þannig að nær væri að hækka skatta en lækka.Sakir þess hve staðan er við­kvæm vildu engir þing­menn sem Frétta­blaðið ræddi við koma fram undir nafni.

Það eina sem sagt er liggja fyrir um ráð­herra­stólana er að Katrín Jakobs­dóttir haldi á­fram í for­sætis­ráðu­neytinu.

„Þau væru hætt að tala saman ef þetta væri búið,“ segir einn þing­maður meiri­hluta­flokkanna.

„Það að þau fundi enn­þá er sterk vís­bending um að við­ræðurnar muni skila árangri,“ segir annar þing­maður.Sam­kvæmt upp­lýsingum Frétta­blaðsins munu þing­flokks­fundir VG, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar­flokks fara fram í dag eða á morgun. Þá munu for­menn flokkanna kynna af­rakstur fundanna undan­farið og upp­lýsa um gang mála.