Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, sagði í ræðu sem hún flutti fyrir Alþingi í dag vegna sérstakrar umræðu um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) að það þjóni ekki almannahagsmunum að áfrýja dómi MDE. Hún segir að hún upplifi það núna eins og það eigi að „tæta í sig Mannréttindadómstólinn bara til verndar hégóma Sigríðar Á. Andersen. 

Þórhildur Sunna var harðorð í garð bæði Sigríðar Andersen og Sjálfstæðisflokksins í langri ræðu sem hún hélt á Alþingi í dag. Hún sagði að flokkurinn hafi ítrekað í gegnum söguna boðið upp á „eftiráskýringar“ eftir að þau hafi skipað dómara sem hún segir að ekki hafi uppfyllt hæfnikröfur sem hafi verið settar fram í auglýsingum.

„Sama eftiráskýringin að breyttu breytanda hefur þannig gengið í endurnýjun lífdaga í hvert sinn sem dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilja ekki skipa faglega heldur flokkspólitískt í dómaraembætti. Og hún lifir enn góðu lífi,“ sagði Þórhildur Sunna á þing í dag.

Reynt að koma í veg fyrir pólitísk afskipti í Landsrétti

Hún segir að með í ákvæðum um fyrstu skipan dómara við Landsrétt hafi verið reynt að stemma stigu við þessum „pólitísku afskiptum“ ráðherra við skipan dómara. Hún segir að fyrrverandi ráðherra, Sigríður Á. Andersen, hafi þó ekki látið það „á sig fá“ heldur hafi hún við skipan dómarana ákveðið að ákveðin reynsla skyldi fá aukið vægi. Hún hafi þó aldrei rökstutt af hverju þessi ákveðna reynsla hafi átt að fá meira vægi.

„Um leið gekk hún vísvitandi fram hjá þó nokkrum öðrum umsækjendum sem metnir höfðu verið með meiri dómarareynslu en hluti þeirra fjögurra sem ráðherrann valdi. Það fór sem fór. Ráðherrann fékk sínu framgengt og skipaði fjórmenninganna þvert á ráðleggingar, þvert á stjórnsýslulög og þvert á þá meginreglu að velja eigi hæfasta umsækjandann í opinbera stöðu hverju sinni,“ sagði Þórhildur Sunna.

MDE slær „rækilega á puttana á Sjálfstæðisflokknum“

Sú breyting hafi þó orðið í þetta skiptið að MDE hafi „slegið rækilega á puttana á Sjálfstæðisflokknum sem allt of lengi hefur haft þá kafi ofan í krúsinni.“

Hún segir að hún neiti að láta „eftiráskýringar Sjálfstæðismanna birgja mér sýn eða leyfa þeim að vaða uppi með villandi og röngum málflutningi átölulaust. Látum síst af öllu afbakanir þeirra og dylgjur um Mannréttindadómstóll Evrópu og dóm hans í Landsréttarmálinu ná fótfestu í umræðunni.“

Hún segir að með því að efast um niðurstöðu dómsins sé Sjálfstæðisflokkurinn að grafa undan trúverðugleika dómstólsins. Hún segir að það megi alveg ræða hvort áfrýja eigi dómnum, þó hún efist um gagnsemi þess að gera það, en segir að það sem ekki eigi að gera sé að „halda því ítrekað fram að dómstóllinn hafi verið notaður í pólitískum tilgangi, án þess að hafa fyrir því nokkur haldbær rök. Eða að tala um að dómstólar á Íslandi hafi framselt túlkun af vald sitt til erlendra dómstóla. Eða að segja dómstóllinn sé að vega að fullveldi Íslands.“

Hún segir ekkert á bak við þetta og að slík orðræða standist enga skoðun. Hún segir að dómstóllinn, sáttmálinn og annað sem tryggi mannréttindi Evrópubúa sé eitt fallegasta sköpunarverk mannkyns.“

Hún segir það stórvirki sem hafi verið unnið að með „þrotlausri vinnu“ um alla álfuna í 70 ár.

„Og nú vill Sjálfstæðisflokkurinn bara spyrja spurninga um hvort þetta sé nokkuð svo merkilegt bákn því að Mannréttindadómstóllinn, sem hefur það hlutverk að vernda mannréttindi 830 milljón manna í allri Evrópu, komst að niðurstöðu sem Sigríður Á. Andersen kann ekki að meta,“ segir Þórhildur Sunna.

Hún segir að slíkt hafi sannarlega viðgengist í Evrópu og verið stundað, að ráðast á trúverðugleika dómstólsins og tekur nokkur dæmi.

„Dönsk stjórnvöld reyndu að fljúga vængjum rasisma og útlendingaandúðar til Strassborgar, breskir stjórnmálamenn gátu ekki hugsað sér að leyfa föngum að kjósa, og menn eins og Victor Orbán, Pútín, Salvini og Erdogan hika ekki við að ráðast að undirstöðustofnunum mannréttindaverndar í Evrópu til að ýta undir sína þjóðernispopúlísku og valdhyggjusinnuðu stefnu heimafyrir.“

Hún sagði að eins ógeðfelld og henni finnist þær herferðir hjá þeim finnist henni hvati Sjálfstæðisflokksins „jafnvel verri því að hann er svo ódýr.“

Tæta í sig MDE til „verndar hégóma Sigríðar“

Hún segir að hún upplifi það núna eins og það eigi að „tæta í sig Mannréttindadómstólinn bara til verndar hégóma Sigríðar Á. Andersen. 

„Það er eitthvað svo ömurlega ódýrt. Engin stefna á bak við það, bara eiginhagsmunir og tækifærismennska, eins og einhver sagði hér um daginn.“

Hún segir að þó við fáum möguleiki til að áfrýja dómnum séu litlar líkur á því að niðurstaðan breytist. Dómurinn sé bæði ítarlegur og vel rökstuddur. Hún furðar sig síðan á því að niðurstaða hans hafi komið ríkisstjórninni á óvart því dómurinn sé í fullkomnu samræmi við dómafordæmi og rími vel við afstöðu dómstólsins að „dómstóll sem ekki er skipaður samkvæmt lögum geti ekki talist dómstóll grundvallaður á lögum.“

Hún segir að lokum að Píratar hafi frá upphafi bent á að þessi staða myndu koma upp. Hún segir að við séum „í besta falli í startholunum varðandi það að taka á málinu. En við erum í versta falli að undirbúa okkur undir fleiri mánuði, jafnvel ár, af óvissu um heilt dómstig vegna þess að ríkisstjórnin heldur að hún geti grætt eitthvað á því að áfrýja málinu.“

Ræðu Þórhildar í heild sinni má lesa hér.