Mótmæli voru haldin fyrir utan heimili Þorgerðar Katrínar og fjölskyldu hennar í bankahruninu 2008, í nokkur skipti. Þorgerður lýsir þessum tíma sem afar sárum. Hún segist virða Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra og þingmann Samfylkingarinnar, fyrir að stíga fram á dögunum og lýsa reynslu sinni af því þegar mótmælt var fyrir utan heimili hennar og fjölskyldu. Þorgerður kann henni miklar þakkir fyrir, en hún upplifði svipaðar aðstæður.

Allra sárast fannst Þorgerði þegar eiginmaður hennar var sakaður af þeim sem mótmæltu fyrir utan heimili þeirra um að nota fatlað barn þeirra hjóna sem skjól fyrir mótmælendum.

„Þetta voru nokkur skipti. Aðallega tvö sem voru afar erfið. Það var verið að eggja húsið, við vorum að reyna að fara út áður en börnin og nágrannar vöknuðu til að hreinsa. Passa upp á allt fyrir börnin. Það var alltaf það sem maður var að gera, passa að daglegt líf barnanna breyttist ekki. Börn stjórnmálamanna vita að það er ekki alltaf skemmtilegt, en það eru mörk. Samfélagið hlýtur sjálft að setja sér mörk.  Varnarleysið var óþolandi. Mér fannst ég ekki geta tekið faðminn utan um börnin á þessum tíma.”

Eiginmaður Þorgerðar starfaði sem framkvæmdastjóri í Kaupþingi fyrir hrun. Þau hjónin komu bæði fyrir í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Íslenskur almenningur var reiður eftir hrunið, fannst brotið á sér.

„Ég skil reiðina. Ég skil að fólk hafi verið reitt út í okkur líka. Ég hef margoft sagt að þetta sé tímabil sem mikilvægt er að læra af. Íslenska þjóðin þurfti að fara í gegnum uppgjör. Rannsóknarskýrslan var hluti af því. Auðvitað fór maður sjálfur í persónulegt uppgjör. Ég hef skilið þennan kafla í mínu lífi eftir í fortíðinni. Ég hef markvisst reynt að líta á þessa reynslu sem þroskandi fyrir okkur öll. En þegar ég lít til baka á þennan tíma stingur hvað það voru fáir í Sjálfstæðisflokknum sem stóðu við bakið á mér. Það voru ákveðnar vinkonur mínar sem höfðu samband og knúsuðu mig, en enginn úr forystu flokksins,” lýsir Þorgerður. 

„Mér finnst Steinunn Valdís hugrökk að fara fram með málið og ég virði hana. Enn finnst mér leitt að sjá að sumir þeirra sem stóðu fyrir utan heimili okkar hafi ekki séð að sér. Að það séu enn til einstaklingar, aðallega karlar, sem finnst í lagi að mótmæla fyrir framan heimili fólks. Það er þetta varnarleysi sem foreldri stendur frammi fyrir, að þú getir ekki varið börnin þín eða heimili,” segir Þorgerður en undirstrikar réttinn til að mótmæli. Hann sé mikilvægur hverju lýðræðisríki.  

„En mótmælið niðrá þingi, í ráðuneytum, en ekki við heimili fólks.” 

Erfiðast gagnvart dótturinni 

Í fyrsta sinn sem mótmælt var fyrir utan hjá henni segist hún hafa fengið veður af því með stuttum fyrirvara. „Við eigum tvo drengi sem voru að koma heim úr Krikanum í sínum æskublóma. Við rétt gátum forðað því að þeir gengu inn í hóp af mjög æstu fólki. Svo er það ekki síður það, sem situr mest í mér, að vera með fatlað barn, sem þarf ákveðinn undirbúning, öryggi og skipulag og á erfitt með að upplifa eitthvað skyndilegt. Við náðum ekki að undirbúa hana og hún sturlaðist. Á meðan beið fólkið fyrir utan og ég man, að einn tiltekinn einstaklingur kom á dyrnar og afhenti manninum mínum eitthvað. Hann hélt á stelpunni okkar. Þá vildi einhver meina að við værum að nota fatlaða dóttur okkar sem skjól. Þarna hafði hún verið frávita inni stuttu áður. Þá fannst mér samfélagið vera komið á ofboðslega lágt plan. Þarna stóðu tilteknir einstaklingar og töldu sig vera einhverja málsvara alþýðunnar eða réttlætisins. Það var síður en svo,” lýsir Þorgerður og segir mikilvægt að eftirleikur hrunsins sé líka gerður upp.  Hvernig samfélagið brást við og hvernig við ætlum að læra af reynslunni.

„Við þurfum að hafa kraft og þor til að detta ekki í popúlisma, heldur standa vörð um grunnreglur réttarríkisins.” Þorgerður Katrín var í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsin sem lesa má í heild sinni hér.