Ástu Marteinsdóttur rann blóðið til skyldunnar þegar hún sá heilbrigðisyfirvöld kalla ítrekað eftir liðsauka í fyrstu bylgju faraldursins í vor og skráði sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.

Þegar hún lét slag standa í lok mars voru Íslendingar enn að venjast því að þurfa að gæta sín á ósýnilegum vágesti sem dreifðist hratt um samfélagið.

Ásta er lærður sjúkraliði og er að læra lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún horfir nú upp á talsverðan tekjusamdrátt þar sem bakvarðalaunin skerða framfærslulán hennar hjá Menntasjóði námsmanna.

Hún furðar sig á því að stjórnvöld hafi ekki séð til þess að þeir nemar sem hafi boðið fram aðstoð sína í faraldrinum yrðu ekki síðar fyrir langvarandi tekjuskerðingu.

Tilneydd til að sækja auknar tekjur

Ásta segir niðurstöðuna vera sérstaklega erfiða fyrir fjölskylduna þar sem unnusti hennar starfi sem ljósmyndari.

„Hann missti 95% af verkefnunum sínum á einum degi í vor og við eigum barn og erum að leigja þannig að ég var líka svolítið tilneydd til þess að fara að vinna. Við hefðum bara verið í frekar vondum málum ef við hefðum ekki fengið þessar tekjur. Mér finnst það bara vera svo gróft að það bitni síðan á námslánunum mínum í heilt ár.“

Sömuleiðis muni sérstakar COVID-19 álagsgreiðslur sem greiddar voru út til heilbrigðisstarfsmanna skerða framfærsluna.

Mikið álag hefur verið á heilbrigðisstarfsfólki vegna heimsfaraldursins.
Mynd/Landspítalinn

Starfaði á spítalanum á toppi fyrstu bylgjunnar

990 manns voru með virkt smit hér á landi þegar Ásta tók sína fyrstu vakt á smitsjúkdómadeild A7 á Landspítalanum þann 31. mars.

Nýlega var búið að setja á tuttugu manna samkomubann og þríeykið keppist við að hvetja Íslendinga til að ferðast innanhúss um páskana. Um mánuður var liðinn frá því að fyrsta tilfellið greindist á Íslandi og álag á heilbrigðiskerfinu fór vaxandi dag frá degi.

Strax þurfti Ásta að venjast því að sinna sjúklingum á meðan hún var þakin hlífðarbúnaði frá toppi til táar. Þar á meðal voru gleraugu og andlitsgríma sem þurfti að strekkja þétt að andlitinu til að verjast smiti.

35 einstaklingar lágu inni á Landspítalanum með COVID-19 þegar Ásta hóf störf og átti sú tala eftir að fara hækkandi. Hún starfaði á smitsjúkdómadeildinni út aprílmánuð á meðan róðurinn var hvað þyngstur á spítalanum.

Grímur og gleraugu sem þurftu að sitja þétt á andliti Ástu skildu gjarnan eftir sig för og var hún stundum þrútin fram á næstu vakt.
Mynd/Aðsend

Ómannlegt að starfa við þetta til lengdar

Ásta segir að það hafi verið heitt og erfitt að athafna sig í gallanum og að gríman hafi gjarnan skilið eftir sig far á andlitinu. Kom fyrir að hún væri enn þrútin í framan þegar hún mætti á næstu vakt.

Vinnan var erfið og reyndi mjög á líkamlega og ekki síður andlega.

„Það er bara drulluerfitt að vinna í þessum búning og sinna nærhjúkrun sjúklinga sem eiga erfitt með að hreyfa sig og anda. Þetta er mjög þungt, maður verður kófsveittur undir þessu og alveg búinn á því.“

Ofan á allt saman hafi í upphafi bæst ótti við að smitast af sjúklingum. Sú hræðsla hafi þó fljótlega horfið.

„Ég held að ég geti alveg fullyrt að það er nánast ómannlegt að gera þetta til lengdar en við bara brettum upp ermar og urðum að gera þetta.“

Fékk svar eftir fimm mánuði

Ásta segist hafa reiknað með því að stjórnvöld og Menntasjóður námsmanna, þá Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN), myndu koma til móts við þá nemendur sem skráðu sig í bakvarðasveitina, sérstaklega í ljósi þess að áhersla hafi verið lögð á að ráða nema í heilbrigðisgreinum.

„Það var svo margt annað að hugsa um að þetta komst ekki að. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég var spurð um þetta var að þetta hlýtur bara að leysast. Samfélagið hefur hingað til lagst á eitt og reynt að redda hlutunum, ef það er ekki ástæða til að taka tillit til þessa, hvað þá?

Ásta sendi LÍN fyrst erindi vegna málsins í lok apríl síðastliðnum. Eftir fjölmargar ítrekanir og samskipti við menntamálaráðuneytið barst henni loks formlegt svar frá stjórn sjóðsins í byrjun október. Þar kemur fram að engin heimild sé í núgildandi reglum sjóðsins til að undanskilja greiðslur fyrir störf í bakvarðasveitum við útreikning námslána.

Það eitt að fara í og úr hlífðargallanum er flókið verkefni sem krefst sérstakrar aðgátar.
Mynd/Aðsend

Refsað fyrir að bjóða fram aðstoð

Ásta segir niðurstöðuna vera mikil vonbrigði en ekki beint koma sér á óvart eftir það sem á undan hefur gengið.

„Ég reyndar átti svo sem alveg von á þessu, svona virkar LÍN en mér finnst bara svo mikil þversögn í því að eitt stjórnvald óski eftir aðstoð en svo refsar annað þér. Það er svo órökrétt,“ bætir hún við og segist þekkja aðra í svipaðri stöðu.

Eins og áður segir sér Ásta nú fram á umtalsverða skerðingu á framfærslu sinni á þessari skólaönn og þeirri næstu sem skilji eftir sig skarð í heimilisbókhaldinu á mjög erfiðum tíma fyrir fjölskylduna.

Þann 21. september síðastliðinn opnaði heilbrigðisráðuneytið aftur fyrir skráningar í bakvarðasveitina eftir að fjöldi virkra smita hafði meira en fimmfaldast á einni viku og þriðja bylgja faraldursins virtist vera að ná flugi.

Aðspurð segist Ásta ætla að láta það vera að skrá sig að þessu sinni.