Leiðsögn - stéttarfélag leiðsögumanna, lýsir áhyggjum „af því hrottalega dýraníði sem sumir íslenskir hrossabændur hafa gert sig seka um og fjallað hefur verið um í fréttum undanfarna daga.“ Félagið krefst þess að blóðtaka úr hryssum verði bönnuð án tafar hér á landi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Leiðsögn sem Friðrik Rafnsson formaður sendi í nafni stjórnar félagsins.
Fréttablaðið hefur undanfarið flutt af því fréttir að Matvælastofnun rannsaki nú myndskeið sem alþjóðlegu dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation birtu nýverið. Það sýnir óviðunandi aðstæður í blóðtökubásum á nokkrum sveitabæjum hér á landi þar sem blóðmerahald er stundað.
Í yfirlýsingunni frá Leiðsögn segir að það sé hlutverk félagsmanna að fræða þau sem hingað koma um íslenska sögu, menningu og náttúru. Íslenski hesturinn sé órjúfanlegur hluti þess, hann hafi fylgt þjóðinni frá landnámi og gegnt mikilvægu hlutverki í íslenskri sögu og geri enn þann dag í dag.
„Fátt kallar fram sterkari hughrif, gleði og væntumþykju hjá erlendum ferðamönnum en stóðin sem sjá má víða í sveitum landsins. Þúsundir ferðamanna fara í lengri og styttri hestaferðir á ári hverju, kynnast íslenska hestinum og njóta íslenskrar náttúru á einstakan hátt. Að spilla þeirri náttúruupplifun og því orðspori að Íslendingar séu sannir dýravinir gæti orðið þjóðinni afar dýrkeypt. Leiðsögumenn telja að orðspori Íslands og hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu sé stefnt í bráða hættu með þessu framferði gagnvart varnarlausum dýrum“, segir í yfirlýsingunni.