Leið­­sögn - stéttar­­fé­lag leið­­sögu­manna, lýsir á­hyggjum „af því hrotta­­lega dýra­níði sem sumir ís­­lenskir hrossa­bændur hafa gert sig seka um og fjallað hefur verið um í fréttum undan­farna daga.“ Fé­lagið krefst þess að blóð­­taka úr hryssum verði bönnuð án tafar hér á landi. Þetta kemur fram í yfir­­­lýsingu frá Leið­­sögn sem Frið­rik Rafns­­son for­­maður sendi í nafni stjórnar fé­lagsins.

Frétta­blaðið hefur undan­farið flutt af því fréttir að Mat­væla­stofnun rann­saki nú mynd­skeið sem al­þjóð­legu dýra­verndar­sam­tökin Animal Welfare Founda­tion birtu ný­verið. Það sýnir ó­við­unandi að­stæður í blóð­töku­básum á nokkrum sveita­bæjum hér á landi þar sem blóð­mera­hald er stundað.

Í yfir­lýsingunni frá Leið­sögn segir að það sé hlut­verk fé­lags­manna að fræða þau sem hingað koma um ís­lenska sögu, menningu og náttúru. Ís­lenski hesturinn sé ó­rjúfan­legur hluti þess, hann hafi fylgt þjóðinni frá land­námi og gegnt mikil­vægu hlut­verki í ís­lenskri sögu og geri enn þann dag í dag.

„Fátt kallar fram sterkari hug­hrif, gleði og væntum­þykju hjá er­lendum ferða­mönnum en stóðin sem sjá má víða í sveitum landsins. Þúsundir ferða­manna fara í lengri og styttri hesta­ferðir á ári hverju, kynnast ís­lenska hestinum og njóta ís­lenskrar náttúru á ein­stakan hátt. Að spilla þeirri náttúru­upp­lifun og því orð­spori að Ís­lendingar séu sannir dýra­vinir gæti orðið þjóðinni afar dýr­keypt. Leið­sögu­menn telja að orð­spori Ís­lands og hags­munum ís­lenskrar ferða­þjónustu sé stefnt í bráða hættu með þessu fram­ferði gagn­vart varnar­lausum dýrum“, segir í yfir­lýsingunni.