Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur tekið við lyklum að dómsmálaráðuneytinu. Sigríði Á. Andersen, sem greindi frá því í fyrradag að hún myndi stíga tímabundið til hliðar vegna Landsréttarmálsins, afhenti henni lyklana klukkan eitt eftir hádegi. Þórdís gegnir nú tveimur ráðherraembættum, en hún er nú bæði dómsmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Sem fyrr segir greindi Sigríður frá því í vikunni að hún ætlaði að stíga til hliðar eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um skipan dómara í Landsrétt. 

Sjá einnig: Klár vilji ráð­herrans að á­frýja

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti í gær að Þórdís Kolbrún myndi taka tímabudnið við dómsmálaráðuneytinu. Bjarni sagði að litið væri á ráðahaginn sem nokkurra vikna úrræði. 

Þórdís Kolbrún sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að mikilvægt væri að áfrýja dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. „Málið varðar eina af grunnstoðum samfélagsins, réttarkerfið okkar. Það er lykilatriði að sé stigið varlega til jarðar þegar kemur að því að freista þess að löggjafar- og framkvæmdavaldið skýri stöðu mála hraðar. Huga þarf að því að ekki verði aukið við réttaróvissu og að leyst verði úr málum af yfirvegun," sagði Þórdís.