Inga Hrönn Jónsdóttir aktivisti gagnrýndi núverandi stefnu stjórnvalda þegar kemur að afglæpavæðingu og kallaði eftir því að meira samráð væri við notendur á ráðstefnu um skaðaminnkun í dag.

Inga Hrönn fjallaði þar um persónuleg reynslu sína af skaðaminnkandi úrræðum og stefnu stjórnvalda í vímuefnamálum. Inga sagði frá því að hafa þurft að nýta sér skaðaminnkandi úrræði tvö ár og hvaða áhrif það hafði á hana og líf hennar. Hún gagnrýndi núverandi stefnu stjórnvalda og kallaði eftir því að meira samráð væri við notendur.

„Ég þurfti að nýta mér skaðaminnkandi úrræði í rúm tvö ár og þegar ég lít til baka yfir tímann sem ég barðist við vímuefnavanda er það sem stendur helst upp úr kærleikurinn, virðingin og stuðningurinn sem ég hlaut frá því fólki sem hefur tileinkað lífi sínu að aðstoða okkur sem tilheyrum hópi sem fæstir vilja vita af. Ég þekki það of vel að mæta fordómum, skilningsleysi og vanvirðingu vegna vímuefnaneyslu. Það breytti því öllu í mínum raunveruleika þegar ég var gripin af ykkur,“ sagði hún í erindinu en hún nýtti sér sem dæmi þjónustu Konukots og Frú Ragnheiðar og segir að það hafi verið þeim möguleika að nota í öruggu rými, undir eftirliti starfsfólks, að hún komst undir læknishendur þegar líf hennar var undir.

Ég þekki það of vel að mæta fordómum, skilningsleysi og vanvirðingu vegna vímuefnaneyslu

„Allan þann tíma sem ég notaði vímuefni í æð get ég talið á annarri hendi þau skipti sem ég þurfti að kaupa mér búnað,“ sagði Inga Hrönn og kallaði svo eftir því að opnuð yrði umræða um það samfélagslega mein sem þau sem glíma við vímuefnavanda þurfa að takast á við.

„Sú valdbeiting, óréttlæti, ofbeldi og áreiti sem við mætum daglega af hendi hins opinbera. Lögreglan, réttarkerfið okkar og heilbrigðiskerfið nýta sér sitt vald og sína stöðu til þess að brjóta okkur niður, beita okkur ofbeldi og ólöglegri valdbeitingu án þess að þurfa nokkurn tímann að taka ábyrgð á því, okkar líf skiptir jú ekki máli,“ sagði Inga.

Svipt öllum réttindum

„Það virðist nefnilega vera að um leið og við erum búin að setja vímuefni í líkama okkar þá erum við orðin glæpamenn, við erum svipt öllum þeim réttindum sem við eigum sem manneskjur og það er samþykkt að niðurlægja okkur og koma fram við okkur á þann hátt sem þeim hentar hverju sinni. Ég hef ótal sinnum horft upp á hluti sem eiga ekki rétt á sér og eru óafsakanlegir með öllu af hendi þeirra sem við eigum að geta treyst fyrir öryggi okkar og lífi,“ sagði hún og gagnrýndi það að þegar börnum er kennt frá unga aldri að hringja á aðstoð þegar það er í vanda þá veigri fólk sem neytir vímuefna sér við því að leita sér aðstoðar vegna fordóma og ótta við refsingu.

„Vegna þess eins að þegar við höfum komist í kast við lögin þá erum við einskis virði lengur og það skiptir samfélagið okkar og lögregluna engu máli að fólk þurfi að borga fyrir það með lífi sínu,“ sagði Inga og að það sé vel vitað að vímuefnavandi eigi sér margar orsakir og að fólk leiti í það því þau hafi ekki fundið sér heilbrigðari leið til að glíma við sinn vanda.

Tölfræði um andlát skipta engu máli í þessu samhengi og að sjá hversu lítið okkar líf virðist skipta máli er sárt og á ekki að fá að líðast

Þjóðin illa upplýst

Inga sagði að á þeim 19 mánuðum frá því að hún neytti síðast vímuefna hafi hún beitt sér í málaflokknum en á sama tíma séð hvað þjóðin er illa upplýst.

„Um leið og fréttir birtast á netinu um að við höfum möguleikann á betra lífi svo sem uppsetning smáhýsa, neyslurými eða aukið fé sem er sett í þennan málaflokk fer umræðan að snúast um það að skattpeningar okkar eigi ekki að fara í að hjálpa okkur við að nálgast vímuefni, Frú Ragnheiður sé ekki að gera neitt annað en að útdeila vímuefnum, það sé nú ekki við hæfi að setja upp smáhýsi í hverfum þar sem börn búi og að neyslurými og afglæpavæðing séu að auka neyslu og þar með að kenna unga fólkinu okkar að það sé í lagi að nota vímuefni.“

Hún kallaði eftir því að það sé rætt við fólk sem neytir vímuefna, í stað þess að „jakkafattaklæddir menn sem aldrei hafa glímt við vímuefnavanda“ tali fyrir hópinn.

„Það sem hefur þó rist dýpst í þessum málum hefur verið þegar ég hef verið í samskiptum við fólk sem tilheyrir stjórn þessa lands að sjá það eina sem drífur er að tala um peninga, benda á hversu mikið refsistefnan kostar ríkið árlega. Tölfræði um andlát skipta engu máli í þessu samhengi og að sjá hversu lítið okkar líf virðist skipta máli er sárt og á ekki að fá að líðast,“ sagði Inga.

Eigum öll sama rétt á virðingu

Inga sagði það einnig hafa verði furðulega upplifun að leita sér læknisaðstoðar eftir að hún hætti að nota og að hún hafi fundið fyrir virðingu sem hún fékk ekki áður. Hún segir fordómana þó ekki algilda og að hún skynji að það sé stefnt í rétta átt.

„Við eigum öll rétt á sömu framkomu og þjónustu sama hvaðan við erum að koma og sama hvert lífið hefur tekið okkur.“

Hún sagði að lokum að það þyrfti seiglu og þrautseigju í baráttunni og þakkaði þeim sem hafa staðið vaktina í baráttunni og stutt hana þegar hún var veik og þegar hún er nú í bata.

„Þið eigið stóran þátt í því hversu fallegt og innihaldsríkt líf ég á í dag,“ sagði hún að lokum.

Fréttin er skrifuð upp úr erindi Ingu Hrannar á ráðstefnu Matthildarsamtakanna um skaðaminnkun sem haldin var í dag og var skrifuð með hennar samþykki.