Björn Þorláksson
Sunnudagur 8. maí 2022
07.00 GMT

Orð eru alls konar. Sum orð virðast gegna þeim til­gangi helstum að smætta, draga úr. Önnur ýkja upp. Engin orð eru hlut­laus. En orð eru stundum til alls fyrst.

Sá sem leggur leið sína upp í fjalla­salinn að Lamb­haga­fossi, sá sem gengur hljóður hugsandi, með orð sín í huganum, ekki á vörunum, með ekki annan fé­lags­skap en hrossa­gauk í grennd, kemur ekki ó­breyttur til baka. Sá sem gengur í gegnum hreinsunar­eld hins verald­lega vafsturs á göngu að þessu svæði finnur opnast fyrir til­finningar sem við erum kannski vön að halda niðri vegna sí­bylju á­reitis í verald­legu vafstri.

Þarna er heimurinn al­gjör­lega ó­snortinn, um­merki manns­handarinnar hvergi sjáan­leg. Svæðið varið af náttúrunnar hálfu utan al­farar­leiðar, en nú stendur til að um­bylta þessu öllu vegna fyrir­hugaðrar Hnútu­virkjunar í Hverfis­fljóti, Skaft­ár­hreppi.

Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink

Orðið rask hafði komið upp í hugann, orð sem getur hljómað frekar sak­leysis­lega. Orðið rask kemur fyrir í skýrslum um um­hverfis­á­hrif af rennslis­virkjun, röskun vatns­magns, rask á gljúfri ef virkjað verður. En þegar komið er á leiðar­enda, og það rennur upp fyrir manni að stöðvar­hús virkjunarinnar mun að ó­breyttu rísa að­eins stein­snar frá fossunum, auk þess sem sár opnast þegar vegur verður lagður yfir hið sögu­lega og ein­staka mosa­vaxna hraun, Eld­hraun Skaft­ár­elda, sjálfra móðu­harðindanna sem komu af stað frönsku byltingunni, kviknar vissa um að orðið rask er ekki ná­lægt því að endur­spegla það mikla inn­grip sem nær væri að kalla ham­farir og er að ó­breyttu handan við hornið.

Orðið sem lýsir best af­leiðingum á­kvarðana þeirra manna sem þarna véla um er ekki rask heldur eyði­legging.

Að kyrkja foss er stór á­kvörðun. Sér­stak­lega ef á­kvörðun um háls­tak er tekin í blóra við lög sem ætlað er að vernda slíka perlu.

Sá sem situr hljóður við fossinn með þungt hjarta af hugsunum, seytlandi vatni og hrossa­gauk, hlýtur líka að hug­leiða að í efna­hags­legu til­liti er þessi virkjun af­skap­lega vafa­söm, því með vaxandi ferða­þjónustu opnast fleiri tæki­færi fyrir þá sem eru til­búnir að borga mikla peninga fyrir þá upp­lifun að fá að heim­sækja síðustu ó­snortnu staði heimsins.

Myndir Antons Brin­k segja sögu af ver­öld sem er. Ver­öld sem blasir við að verði eyði­lögð.

Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Fréttablaðið/Anton Brink
Athugasemdir