Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir að yfirlýsing séra Davíðs þórs Jónssonar um að flokksmenn Vinstri grænna eigi helvítisvist vísa, stangist á við siðareglur presta. Þetta segir hún í samtali við Mbl.is.

Séra Davíð Þór sagði í samtali við Fréttablaði í kvöld að hann standi við orð sín og að hann eigi rétt á persónulegum skoðunum. Afstaða hans sé ekki opinber afstaða Þjóðkirkjunnar. Davíð Þór var harðorður í stöðuuppfærslu á Facebook um stjórn Vinstri grænna vegna brottvísanna 250 hælisleitenda, en það er mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar.

„Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ skrifaði Davíð Þór.

Agnes biskup segir í samtali við Fréttablaðið að hún hafi séð færsluna og að von sé á yfirlýsingu frá Þjóðkirkjunni í fyrramálið.

Orri Páll Jóhannsson, þingmaður og þingflokksformaður Vinstri grænna, fordæmir yfirlýsingu Davíðs Þórs.

„Með þessum ummælum er verið að ala á hatursorðræðu í samfélaginu sem er eitt stærsta mein okkar samtíma. Það er grafalvarlegt að þjóðkirkjan taki þátt í slíku,“ segir hann í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG bregst við gagnrýni vegna brottvísanna í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld klukkan 18:30. Fréttavaktin er svo endursýnd klukkan 20:30 í kvöld en hægt er að horfa á þáttinn í fullri lengd hér.