Viktor Orbán hefur lýst yfir sigri í þingkosningunum í Ungverjalandi. Nú þegar meira en sjötíu prósent atkvæða hafa verið talin stefnir í yfirburðasigur Fidesz, flokks hans. Að öllu óbreyttu stefnir í að Orbán sitji sitt fjórða kjörtímabil í röð sem forsætisráðherra landsins.

Orbán er talinn helsti bandamaður Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta sem er innan Evrópusambandsins.

Kosningabaráttan í Ungverjalandi snerist að miklu leiti um innrás Rússa í Úkraínu, en forsætisráðherrann kom sér hjá því að gagnrýna hana. Það var þvert á óskir margra innan ESB sem vildu sýna samstöðu í andstöðu sinni gegn innrásinni.

Í þakkarræðu sinni gerði Orbán mikið úr kosningasigrinum. „Þetta er svo stór sigur að hann sést frá tunglinu, og við getum verið viss um að hann sjáist frá Brussel,“ sagði hann.

Þá nefndi hann nokkra andstæðinga sína, en þar í hópi var Vlodímír Selenskíj Úkraínuforseti. Hann nefndi einnig vinstrið í Ungverjalandi, embættismenn í Brussel og stóra alþjóðafjölmiðla.