„Ég er orðinn alveg ótrúlega þreyttur á þessum endalausa barlóm í ferðaþjónustuaðilum sem sjá ekkert nema svartnætti. Þeirra eina leið til að vera réttu megin við núllið er að hækka, hækka og hækka.“ Þetta segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, í samtali við Fréttablaðið.

Þórarinn hélt í dag fyrirlestur á Landbúnaðarsýningu sem haldin er í Laugardalshöll um helgina. Þar gagnrýndi hann ferðaþjónustuaðila harðlega fyrir að okra á ferðamönnum. Að sögn Þórarins eru ferðamenn í síauknum mæli farnir að kaupa allan mat í Bónus og ferðast um á húsbílum. Háu verðlagi sé þar um að kenna.

Að mati Þórarins er lausnin við þessari þróun að ferðamenn eyði hér sífellt minni pening, að snar lækka verð á vörum og þjónustu. 

Margfaldaði veltuna á veitingasviði

IKEA er líklega stærsti veitingastaður landsins en í kynningu hans kom fram að gestir veitingasviðs IKEA séu ríflega ein milljón á árinu. Til samanburðar voru gestirnir 457 þúsund árið 2010. 

Hann sagði í ræðu sinni að ef hann hefði hækkað verð eftir hrunið 2008, þá væru tölurnar í dag mun lægri. Þess í stað hafi hann haldið verðinu markvisst niðri og snar aukið áherslu á íslenskan þjóðlegan mat. Smám saman hafi eldhús IKEA aukið framleiðslu á eigin hráefni. 

„Með auknum umsvifum hefur framleiðnin á hvern starfsmann snar aukist og vegur það á móti verðbólgu og launahækkunum. Aukin umsvif gera það einnig að verkum að ég næ betri kjörum hjá framleiðendum og birgjum,“ sagði hann í ræðu sinni. „Við höfum náð að halda verði svo að segja óbreyttu síðustu 6 – 8 ár og þrátt fyrir miklar launahækkanir, þá sé ég ekki fyrir mér að við komum til með að þurfa að hækka verðið í fyrirsjáanlegri framtíð.“

Þórarinn sagði að þó gestafjöldinn á veitingasviði væri mikill núna hafi það ekki alltaf verið svoleiðis. Sem hlutfall af heildarveltu IKEA hafi veitingasviðið verið 3 prósent árið 2005, þegar hann tók við rekstri fyrirtækisins. Árið 2008, eftir aukna áherslu á þjóðlegan mat, hafi hlutfallið verið komið í 6 prósent. Árið 2013, eftir kreppuna, hafi hlutfall veitingasviðs af veltu fyrirtækisins verið orðið 13 prósent, eða um milljarður króna. Í kjölfarið hafi verið tekin sú ákvörðun að bæta enn í innlenda framleiðslu og framleiðslu innanhúss.

Með því móti hafi verið unnt að auka gæði, minnka innflutning og þar með kolefnisfótspor, auka hollustu, minnka rýrnum og lækka kostnaðarverð. Umfram allt hafi fyrirtækið skapað sér sérstöðu. „Ef þú ert að höndla með þína eigin  framleiðslu, þá er enginn með nákvæmlega sömu vöru og þú og það gerir þig einstakan,“ sagði Þórarinn í ræðu sinni.

Hann sagði að hann gæti fundið þúsund ástæður fyrir því að láta undan freistingunni og hækka verð á matvörum IKEA. Hann gæti hækkað verðið um 30 prósent en samt verið með lang lægsta verðið. Ef hann hefði gert það hefði hann ekki horft á þessar tölur: 

Framleiðni hafi í kjölfarið snar aukist og það hafi vegið á móti verðbólgu og launahækkunum. Aukin umsvif hafi einnig í för með sér hagstæðari verð frá byrgjum. „Þetta er galdurinn, en um leið og maður hættir að hugsa:  „Hvað get ég selt þetta fyrir lága upphæð og samt hagnast?“ og fer að hugsa: „Hvað kemst ég upp með að selja þessa vöru dýrt?“ þá, gott fólk, er ballið búið.“

Þórarinn skoraði í ræðu sinni á ferðaþjónustuaðila að auka áherslu á íslenskan mat og lækka hjá sér verð. Það væri skoðun hans að íslenska kjötsúpan ætti að verða þjóðarréttur Íslendinga. Kostnaður við framleiðslu á súpunni væri mjög lágur og ferðamenn ættu fljótt eftir að komast upp á bragðið.

Elda sjálfir og skilja ekkert eftir

Hann sagði okur ástæðu þess að ferðamenn væru í auknum mæli farnir að versla í Bónus og ferðast um í ódýrum húsbílum, í stað þess að kaupa mat og gistingu landið um kring. „Þetta fólk sefur í bílnum og það eldar í bílnum og skilur það af leiðandi nánast ekkert eftir.“ 

Þórarinn sagði tími til kominn að prófa eitthvað annað, því þetta væri ekki að virka. „Ef ferðaþjónustuaðilar ætla að ná vopnum sínum til baka, þá hef ég þá ráðleggingu að einbeita sér að heimalöguðu og lækka verð þannig að það sé enginn hagur fyrir ferðamenn að kaupa allan sinn mat í Bónus.“

Framkvæmdastjórinn tók í ræðu sinni nokkur dæmi um hvernig auka mætti framleiðni með að snar lækka verð og auka um leið söluna. Hann nefndi meðal annars hjónabandssælu og kjötsúpu sem dæmi um rétti sem væri hægt að selja miklu ódýrara en verið væri að gera. Fyrirtæki sem seldi 10 kökusneiðar af hjónabandssælu á dag á 450 krónur stykkið gæti sennilega selt 40 skammta á dag með því að selja sneiðina á 195 krónur. Með því móti mætti auka framlegð um 43,5 prósent. Svipað dæmi tók hann af kjötsúpunni, sem hann segir að sé seld á um og yfir 2.000 krónur skammturinn.

Kjötsúpan verði þjóðarréttur

„Ég hef alveg sérstakar tilfinningar til kjötsúpunnar, sem á að mínu mati að vera þjóðarrétturinn, hvert sem þú kemur. Kjötsúpan á að vera á sama stað og  Chili con carne er í Texas, Gumbo í Louisiana eða  Bolognese á Ítalíu. Kjötsúpan er svokallað „soul food“, sem fyllir þig hlýju, er saðsöm, án þess að vera um of og þú sem ferðaþjónustuaðili getur gert hana að þinni.“

Hann sagði að ef fólk færi að fordæmi IKEA væri framtíð ferðaþjónustuaðila björt. Hægt væri að auka hróður landsins til muna. „Þá þyrftuð þið ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni, sem væri björt fyrir ykkur og í raun alla þá sem að ferðaþjónustu koma, því sameinaðir kæmuð þið til með að færa miðjuna og neyða þá sem standa í okrinu til að stilla verði sín af.

Þórarinn segist í samtali við Fréttablaðið skammast sín fyrir okrið sem viðgangist í ferðaþjónustunni. „Ég er löngu hættur að leyfa mér að stoppa nokkur staðar á leið minni um landið, því mér ofbýður okrið. Ég skammast mín fyrir Íslands hönd þegar ég horfi á túristana með skeifu, nartandi í dýrasta rúnstykki sem þeir hafa séð,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.