Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og bæjarstjórum líst illa á þingmannafrumvarp sem komið er fram um að sveitarfélögum verði heimilt að sekta þá sem nota negld dekk á vélknúnum ökutækjum. Sektin verði allt að 40.000 krónur að ákveðnum tilteknum skilyrðum og að höfðu samráði við Vegagerðina.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á umferðarlögum í þessa veru. Runólfur Ólafsson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) segir um frumvarpið: „Við teljum mjög varasamt að sekta eða skattleggja öryggi.“

Runólfur segir að FÍB hafi lagt áherslu á forvarnir og upplýsingar til almennings og neytenda hvað varði nagladekk og svifryk.

„Við vitum að margir þurfa ekki nagla, við vitum líka að það getur orðið til falskt öryggi en stundum þarf að nota nagla. Það borgar sig ekki að hafa rörsýn þegar svona ákvarðanir eru teknar.“

Runólfur segist fremur styðja að áhersla verði lögð á samþættar aðgerðir. Á höfuðborgarsvæðinu þurfi sem dæmi öflugri hreinsun gatna samhliða átaki um að minnka nagladekkjanotkun.

„Það eru ákveðnar aðstæður þegar nagladekk skilja milli lífs og dauða,“ bætir Runólfur við.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Jóhann Páll Jóhannsson. Í greinargerð kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé að draga úr notkun nagladekkja og vinna gegn lífshættulegri svifryksmengun. Akstur á negldum dekkjum sé helsta orsök svifryks á höfuðborgarsvæðinu. 70 dauðsföll megi líklega rekja árlega hér á landi til svifryksmengunar.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, tekur undir með höfundum frumvarpsins um að svifryk sé mikið mein og að þeir sem slíti götunum eigi að borga meira en hinir. Hann sé þó ekki fylgjandi því að sveitarfélög fái sérstaka heimild til að sekta.

„Það bætir allt umhverfi okkar og lífsgæði að sem fæstir aki um á nagladekkjum,“ segir Ármann.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, tekur mjög einarða afstöðu gegn frumvarpinu.

„Ég held að þetta fyrirkomulag yrði alveg ómögulegt, að sveitarfélögin væru með svona eftirlit, einhverja dekkjalöggu,“ segir Ásthildur.

Hún bendir á að aðstæður til vetraraksturs séu mjög misjafnar eftir búsetu fólks.

„Fólk horfir á öryggið og þeir sem þurfa mikið að ferðast og eru á langkeyrslu, þeir vilja vera á nöglum,“ segir Ásthildur.

Nær væri að lækka gjöld á umhverfisvænni kosti en negld dekk.