Óprúttinn aðili braust inn á Facebook síðu og Instagram reikning Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og eyddi báðum síðum. Hildur hefur nú þegar stofnað nýjan aðgang á Facebook og Instagram.
„Þetta gerðist ítrekað í desember rétt fyrir jólin. Einhver náði að hakka sig inn á báðar síður.“ segir Hildur í samtali við Fréttablaðið. Hún segist hafa reynt að endurheimta aðganginn sinn en fékk enga aðstoð frá samfélagsmiðlinum. Instagram er í eigu Facebook og er því hægt að nálgast báðar síður komist aðili inn á aðra þeirra.
Ljóst er að um mikið tap sé að ræða þar sem stór hluti samskipta fer fram á samfélagsmiðlum.
„Þetta er ákveðið tap, að sjálfsögðu. Þarna missti ég vini sem ég þarf að finna aftur. Þetta er í raun 10 ár af samskiptum og myndum sem maður tapar.“
Hildur segir það leitt að hafa tapað öllum myndunum á Instagram en telur þó að hún eigi einhver afrit í tölvunni.
„Þetta voru mikið af myndum af börnunum mínum og fjölskyldunni. það er leitt að tapa þessu.“
Hildlur segir ekkert í stöðunni en að byrja upp á nýtt og stofna nýjan aðgang. Aðspurð hvort hana gruni einhvern svarar Hildur neitandi.
„Það liggur enginn undir grun hjá mér. Það hafa nú eflaust fleiri lent í einhverju sambærilegu og hugsanlega er þetta bara eitthvað óhappatilvik.“
