Opnunartími sundlauga verður lengdur víða yfir hátíðarnar til að koma til móts við mikla aðsókn og til að koma í veg fyrir hópamyndanir í sundi.

Samkvæmt reglurgerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi þann 10. desember síðastliðinn er 50 prósent af hámarksfjölda gesta leyfilegur í laugunum.

Töluvert hefur verið um hópamyndanir í heitu pottunum þar sem aðeins ákveðið margir mega vera ofan í þeim í einu. Einhverjar laugar hafa gripið til þeirra ráðastafna að taka á móti færri gestum en leyfilegt er. Í Sundhöll Reykjavíkur mega samkvæmt reglugerðinni vera 120 gestir í lauginni en aðeins er verið að taka á móti 100 í einu eins og er. Sundlaugin á Akureyri er að taka á móti 25 prósent af leyfi­legum fjölda.

Sundlaugar í Reykjavík verða opnar lengur á aðfanga- og gamlársdag, eða frá klukkan 6:30 til 13:00, venjulega opnar klukkan 08:00 á þessum dögum.

„Við höfum verið með þrjár laugar opnar á annan í jólum og á nýársdag en í ár verður opið í öllum laugum í Reykjavík frá klukkan 11:00 til 17:00. Þetta er gert til að dreifa álaginu og til að koma í veg fyrir að of margir safnist saman í laugunum," segir Steinþór Ein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri íþrótta- og tóm­stunda­sviðs Reykja­vík­ur í samtali við Fréttablaðið.

Steinþór Ein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri íþrótta- og tóm­stunda­sviðs Reykja­vík­ur segir að mikil aðsókn hafi verið í sundlaugarnar síðan það opnaði í síðustu viku en í sumum laugum er ekki verið að hleypa jafn mörgum ofan í og leyfi er fyrir.
Ernir Eyjólfsson

Það sama gildir í Hafnarfirði en þar hefur opnunartími verið lengdur bæði í Suðurbæjarlaug og Ásvallalaug. Á Þorláksmessu verður venjulegur opnunartími, þ.e. opið til klukkan 22:00, en síðustu ár hefur lauginni verið lokað klukkan 17:00. Þá hefur opnunartíminn verður lengdur á aðfangadag og gamlársdag, en opið verður til klukkan 13:00 í stað 11:00. Lokað verður í laugunum á nýársdag.

Ekki sérstakar opnanir í Kópavogi

Í Kópavogi verður hefðbundinn opnunartími á aðfangadag og gamlársdag frá klukkan 08:00 til 12:00. Á nýársdag verða þó bæði Kópavogslaug og Salalaug opnar í stað einungis Kópavogslaugar.

„Það var fyrir löngu búið að ákveða að hafa opið í báðum laugunum á nýársdag, svo það kemur Covid ekki beint við. Það hefur verið svo ofboðslega mikil aðsókn síðustu ár á þessum degi. Eins og er hefur ekkert verið rætt hvort að opnunartíminn verði lengdur á aðfangadag og gamlársdag en það er ekki útilokað," segir Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogs .

Laugarnar í Kópavogi verða opnar frá klukkan 08:00 til 18:00 annan í jólum og á gamlársdag.