„Viðtökurnar hafa verið betri en við þorðum að vona. Þetta eru að sjálfsögðu erfiðir tímar en við erum bjartsýn. Ef maturinn er góður og verðið sanngjarnt þá gengur þetta upp,“ segir Usman Mehmood. Usman opnaði í vikunni indverska veitingastaðinn Taj Mahal ásamt eiginkonu sinni, Farzana Usman, í miðbæ Reykjavíkur.

Ekki nóg með það, heldur hófu þau nýlega rekstur hótels og veitingastaðar í grennd við Hveragerði, gistiheimili í Ármúla og undirbúa opnun annars veitingastaðar á Grensásvegi. „Gistibransinn er hruninn til skamms tíma og því er það bara í dvala þar til ástandið lagast,“ segir Usman.

Usman og Farzana eru frá Pakistan en eru af indversku bergi brotin. Þau fluttu hingað til lands fyrir fjórum árum og líkar lífið vel. „Við vorum í leit að betra lífi. Viðhorf okkar eru frjálslynd og samræmast ekki endilega því sem viðgengst í heimalandi okkar,“ segir Usman. Hann rakst á greinar þar sem fram kom að mannréttindi og tjáningarfrelsi væru í hávegum höfð á þessari eyju í norðri og eitt leiddi af öðru.

Aðspurður hvernig tekist hafi til við að komast inn í íslenskt samfélag segir Usman: „Við erum ekkert komin enn inn í íslenskt samfélag,“ og skellihlær. Annað gildi þó um börn þeirra hjóna sem eru í Laugarnesskóla og orðin altalandi á íslensku. „Sonur okkar borðar til dæmis helst ekki indverskan mat. Hann vill bara íslenskan mat,“ skýtur Farzana inn í.

Þau segjast hafa unnið myrkranna á milli undanfarin ár. „Það hefur alltaf verið draumur minn að fara út í eigin rekstur. Faðir minn var í veitingarekstri og ég lærði ýmislegt af honum,“ segir Usman. Til að geta fjárfest í eigin rekstri segir Usman að þau hjónin hafi tekið að sér margs konar störf og sinni sumum enn. „Farzana hefur verið í þrifum og aðstoðað í eldhúsi og ég hef starfað í móttöku á hóteli auk þess að keyra rútur,“ segir Usman. Hann keyrir einnig leigubíl hvenær sem hann á lausa stund og reiknar ekki með að hætta því í bráð.

„Lífið snýst um vinnuna og við tökum engin frí. Mér finnst það í raun eðlilegt að innflytjendur þurfi að leggja sig meira fram og sanna sig í nýju samfélagi,“ segir Usman. Að hans sögn hefur gengið vel að stofna til viðskiptatengsla hérlendis en Vinnumálastofnun hefur verið til mikilla vandræða.

„Það er nánast ómögulegt að fá indverska kokka á evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum reynt að fá frábæra kokka frá Indlandi til landsins en það gengur mjög treglega,“ segir Usman.