„Ég kynntist þessu í Svíþjóð fyrir 20 árum og þetta er löngu tímabært hér á landi. Memmm Play á helst að vera í öllum hverfum og öllum bæjum,“ segir Kristín Stefánsdóttir frá opna leikskólanum Memmm Play en skólinn hlaut hæsta styrkinn frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar í gær, rúmar 12 milljónir króna.

Stuðningur við börn, ungmenni og foreldra þeirra voru einkennandi fyrir hæstu styrkina þetta árið. Memmm Play er opinn leikskóli sem býður foreldrum og forsjáraðilum og ungum börnum þeirra fjölskylduvæna aðstöðu til að leika og hitta aðrar fjölskyldur, ásamt því að fá fræðslu og stækka tengslanet sitt og barna sinna. Í skólann mæta mæður og feður, afar og ömmur og aðrir sem eru heima með börn sem eru að bíða eftir leikskólaplássi.

„Við erum búnar að vera með Memmm Play í hartnær tvö ár. Styrkurinn gerir okkur kleift að byrja að vinna við þetta því við erum búnar að vera í sjálfboðavinnu hingað til. Núna getum við sinnt þessu af meiri festu og meiri alvöru,“ segir Kristín.

Skólinn hefur verið opinn tvisvar í viku, um tvo tíma í senn og mæta frá 25-45 börn í hvert sinn þar sem er leikið og sungið og fræðst. „Við segjum stundum að við séum bara að byrja því auðvitað á svona að vera í öllum hverfum og öllum bæjum því gestirnir okkar koma alls staðar að. Frá Akranesi, Selfossi, Garðabæ og Kópavogi. Þörfin er mikil fyrir þennan hóp,“ segir Kristín.