„Ég hef í gegnum árin verið að vinna úr mínum áföllum eftir að hafa verið í söfnuðinum og er komin á þann stað að ég vil loka þessu máli. Í gær lét ég slag standa og hringdi einn öldung og bað hann um að athuga hvort það væru til einhverjar skýrslur um mig til hjá þeim. Þetta var mikil frelsistilfinning og nú bíð ég bara eftir svari,“ segir Hulda Fríða Berndsen sem tilheyrði söfnuði Votta Jehóva um árabil.
Skýrslurnar sem Hulda nefnir eru gögn sem hún segist vita að Vottar Jehóva eigi til, með ýmsum persónulegum upplýsingum um bæði hana og fjölskyldu hennar.
„Þeir komu til mín á sínum tíma með þessa pappíra sem voru meðal annars af barnalandi og að dóttir mín væri lesbía, sem er náttúrulega bara brot á minni friðhelgi, barnabarnanna minna og dóttur minnar. Þetta voru fjórar A4 síður um mín persónulegu mál, en ég sagði mig úr söfnuðinum á sínum tíma, gerði uppreisn og var alls ekkert auðveld,“ segir Hulda.
Hræddist Armageddon
Hulda sleit sig alveg frá Vottum Jehóva fyrir tæplega sextán árum, en hún hafði þá verið meðlimur safnaðarins í rúmlega 30 ár, með hléum þó.
„Ég byrjaði 1974 en var rekin fimm árum síðar. Svo fór ég aftur 86 í einhverju brjálæði þarna inn því ég var orðin svo hrædd að ég hélt að það væri að koma Armageddon. Missti svo fókusinn í lífinu“, segir Hulda
Hulda segir að tíminn í Vottum Jehóva hafi verið litaður af miklu trúarofbeldi, valdníðslu og á köflum heilaþvotti, sem hafi markað sig bæði sem manneskju og sem móður.
„Þetta er búið að trufla líf manns og maður er búinn að ganga í gegnum ótrúlegar hremmingar, sársauka og ofbeldi sem hefur bitnað á börnunum mínum og jafnvel barnabörnunum líka. Þú ferð náttúrulega yfirleitt með beyglað mynstur inn í fjölskylduna þína og það breiðir úr sér til barna og barnabarna líka,“ segir Hulda.
Að sögn Huldu byrjaði hún að átta sig á hlutunum upp úr aldamótum og fór þá að spyrna á móti öllu því sem viðgekkst innan safnaðarins.
“Ég fer að vinna mikið í sjálfri mér í kringum 1996, en ég þorði aldrei að taka á þessu máli því það mátti aldrei segja neitt. Það mátti enginn vita neitt og maður mátti ekki hafa skoðanir. Þegar ég fer að átta mig á þessu fer ég að haga mér öðruvísi,” segir Hulda, sem kveðst þó hafa haldið sig innan safnaðarins í lengri tíma vegna systkina sinna.
„Þau báðu mig um að segja mig ekki úr söfnuðinum svo þau gætu haft samband við mig,“ segir hún.
Ekki heyrt frá systkinum sínum
Þó hafi steininn tekið úr þegar sonur Huldu, rithöfundurinn Mikael Torfason, gaf út þrjár bækur sem opnuðu á líf fjölskyldunnar og þeirra upplifun innan safnaðarins.
„Þegar bækurnar hans Mikka komu svo út varð allt brjálað. Við erum sex systkinin og það er enginn sem talar við mig og hafa ekki gert síðan fyrsta bókin kom út. Þau segja að ég sé að fara með fleipur af því ég segi frá fullt af leyndarmálum sem við Mikki fórum í gegnum, sem má náttúrulega alls ekki hjá Vottunum,“ segir Hulda.
„Bæði með alkóhólismann, hvernig Vottarnir voru og opnuðum á fjölskyldudramað sem við vorum alltaf búin að vera í. Og það endaði með því að það varð allt brjálað,“ bætir hún við.
Hulda segist bera von í brjósti um að hún fái gögnin í sínar hendur og geti þar með klippt á þann streng sem enn tengi hana við Votta Jehóva.
„Miðað við hvað þeir segjast vera heiðarlegir, þá vona ég að þeir sendi mér skjölin. En ef það er ekkert sem þeir senda þá er ég allavegana búin að stíga þetta skref. Ég er sigurvegari sama á hvorn veginn sem þetta fer,“ segir Hulda.