Andartökum eftir að kvikmyndatökustjórinn Halyna Hutchins varð fyrir slysaskoti úr byssu í höndum leikarans Alec Baldwin sagði Halyna við hljóðmann á kvikmyndasettinu við tökur á kvikmyndinni Rust: „Þetta var ekki gott. Þetta var alls ekki gott.".

Nokkrum klukkustundum síðar var Hutchins úrskurðuð látin.

Lokaorð hinnar 42 ára gömlu móður, sem var við vinnu á væntanlegum vestra Baldwins, voru greind af blaðamönnum Los Angeles Times. Skrifin eru byggð á viðtölum við fjórtán starfsmenn á setti, tölvupóstsamskiptum og textaskilaboðum.

Nokkrum augnablikum áður hafði Baldwin verið að undirbúa sig fyrir skotbardaga inni í kirkju og ganga úr skugga um að myndatökuliðið næði réttum sjónarhornum fyrir byssubardaga með 45 kalíbera Colt-byssu að því sem blaðið greinir frá.

„Þannig að ég býst við að ég taki byssuna út, dragi hana upp og „Bang!“,“ sagði Baldwin um leið og hann greip um hulstursbyssuna, sem átti að vera hlaðin gervibyssukúlum, samkvæmt skýrslu LA Times.

Í staðinn flaug raunveruleg byssukúla út um hlaup skotvopnsins, sem leikaranum hafði verið sagt að væri köld byssa, sem þýðir að byssan er ekki hlaðin og er af þeim sökum örugg fyrir æfingar, segir enn fremur í skýrslu LA Times.

Hutchins, sem var lífshættulega særð, hrasaði aftur á bak og féll í fang rafvirkjans á tökustað og blóð streymdi út úr brjósti hennar.

Á sama tíma féll leikstjórinn Joel Souza, sem varð einnig fyrir byssuskoti úr sömu skothríð, á gólfið.

„Hvað í fjandanum var þetta? Þetta brennur!," öskraði Souza af sársauka, segir í frétt blaðsins.

Baldwin lagði byssuna frá sér á bekk og sagði ítrekað: „Hvað í fjandanum gerðist hérna?"

"Læknir!" hrópaði einhver innan um tökuhópnum á meðan aðrir úr hópnum hlupu til hinna hrjáðu Hutchins. Einn þeirra horfði í augu hennar og sagði: „Ó, þetta er ekki gott,“ sagði hann.

„Nei, þetta var ekki gott. Þetta var alls ekki gott,“ svaraði Hutchins.