Jessica Simpson segir frá því að hún hafi verið misnotuð kynferðislega í æsku. Í kjölfarið hafi hún ánetjast örvandi lyfjum og byrjað að drekka mikið.

Söngkonan opnar sig í nýju viðtali við tímaritið People þar sem hún kynnir nýju sjálfsævisögu sína sem ber heitið Open Book.

Misnotkunin hófst þegar hún var einungis sex ára gömul. „Þegar ég deildi rúmi með dóttur fjölskylduvina. Þetta byrjaði smátt með því að kitla á mér bakið. Svo þróaðist þetta út í hluti sem voru gífurlega óþægilegir,“ skrifar Simpson.

Hún hafi verið stjörf af ótta og ekki getað sagt foreldrum sínum frá. Hún hafi lengi kennt sjálfri sér um þrátt fyrir að hafa verið þolandi. Einn daginn, þegar hún var 12 ára gömul, ákvað hún að segja foreldrum sínum frá misnotkuninni. Þá voru þau í bílferð.

„Mamma mín sló í handlegginn á pabba og öskraði: Ég sagði þér að eitthvað hefði komið fyrir,“ skrifar Simpson. Hún segir að faðir hennar hafi verið stjarfur og ekki geta brugðist við fréttunum. Hann hafi bara horft fram fyrir sig á veginn og ekki sagt orð.

„Við gistum aldrei framar heima hjá fjölskylduvinunum. En við töluðum samt aldrei um það sem gerðist.“

Simpson segir að ofbeldið hafi verið gríðarlegt áfall og velgengni hennar sem söngkona hafi einungis bætt ofan á álagið. Fíknin heltók líf hennar og það var ekki fyrr en læknir sagði henni að hún væri á leiðinni til glötunar að hún hætti.

„Ég var að drepa sjálfa mig með áfengi og pillum,“ segir hún í bókinni en hún hætti að drekka í nóvember árið 2017.