Haraldur Einars­son, geð­læknir og fyrrum for­stjóri Heilsu­stofnunarinnar í Hveragerði, kynnti á Face­book síðu sinni í gær að hann kæmi til með að opna geð­þjónustu á Heilsu­gæslu­stöðinni í Hvera­gerði.

Jæja ...með þakklæti og söknuði til Heilsustofnunar í Hveragerði ... eftir byltingarkennd sumar ... þá er komið að því....

Posted by Haraldur Erlendsson on Tuesday, September 10, 2019

Haraldur var starfandi geð­læknir í sjö ár hjá Heilsu­stofnuninni á­samt því að hafa starfað lengi í Bret­landi. Hann hefur sér­hæft sig í per­sónu­leika- og á­falla­streitu­röskunum en hann sinnir einnig allri al­mennri geð­þjónustu.

Haraldi, sem var eini starfandi geð­læknirinn á staðnum, var sagt upp í júní en á­stæða upp­sagnarinnar hefur ekki verið gerð opin­ber. Haraldur stað­festir í sam­tali við Frétta­blaðið að ný geð­þjónusta verði opnuð þann sau­tjánda septem­ber

Byggja upp geð­þjónustu á Suður­landi

„Það stendur til að mynda geð­teymi á HSU, Heil­brigðis­stofnun suður­lands, og þetta er svona partur í því að byggja upp geð­þjónustu á Suður­landi,“ segir Haraldur. Að­spurður segir hann mikla nauð­syn á geð­þjónustu á Suður­landi.

Að sögn Haralds mun teymis­stjóri verða Svan­hildur Ólafs­dóttir, fé­lags­ráð­gjafi og fjöl­skyldu­fræðingur. „Það er ekki búið að leggja loka­hönd á verk­efnið en ég alla veganna opna stofuna og síðan mun teymið fara af stað á næstu mánuðum,“ segir Haraldur.

Haraldur segir að til að byrja með muni hann þjóna sínum fyrri skjól­stæðingum en Suður­land muni ganga fyrir þegar kemur að þjónustunni.