Vatnshæð í Jökulsá á Fjöllum hefur lækkað og því hefur verið tekin ákvörðun að hleypa ótakmarkaðri umferð yfir brúna við Grímsstaði. Umferð um brúna hefur verið takmörkuð síðustu vikurnar vegna hættu á krapa­flóði á veg­in­um.

Samráðsfundur Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, Vegagerðarinnar og Veðurstofu Íslands fór fram fyrr í dag þar sem aðstæður voru metnar.

Ákvörðunin er byggð á hagstæðri veðurspá, jöfnu hitastigi og lítilli úrkomuspá. Ákvörðunin er jafnframt byggð á niðurstöðum sem vísindamenn hjá Veðurstofu Íslands hafa tekið saman og sýna ákveðna þróun á hegðun árinnar, íssins og fleira. Ákveðið jafnvægi virðist hafa náðst og því talið öruggt að opna þjóðveg 1, Hringveg um Mývatns- og Möðrudalsöræfi án hafta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Vísindamenn hafa eftir sem áður, stöðugt eftirlit með mælitækjum og brugðist verður við fyrirvaralaust, ef eitthvað óeðlilegt gerist.