Fangar á Hólmsheiði hófu hönnun og framleiðslu á handverki í nóvember og verður brátt opnuð vefverslun þar sem afurðirnar verða seldar. Ber verkefnið heitið Fangaverk og er í umsjá Auðar Guðmundsdóttur verkstjóra.

Á Hólmsheiði er pláss fyrir 56 fanga, bæði karla og konur, og Auður segir að í kringum 25 hafi verið virk í verkefninu. „Þetta hefur gengið mjög vel. Þau eru öll mjög hugmyndarík,“ segir Auður en í Fangaverki fá fangarnir útrás fyrir sköpunargleðina.

Vörurnar eru af ýmsum toga, svo sem prjónaðar húfur, vasar, kertastjakar, fjölnota bómullarskífur og pokar, óróar, koddaver, ofnhanskar, málverk og margt fleira. Allt handmálað og unnið á staðnum frá grunni.

Íslensku fangelsin eru í auknum mæli farin að huga að umhverfismálum og endurnýtingu. Ber verkefnið sterkan keim af því. „Í steypuna notum við mjólkurfernur, skyrfernur og fleira sem við endurnýtum innandyra. Það er safnað í verkefnið á öllum göngunum hérna og öllum þykir svolítið vænt um þetta,“ segir Auður. Einnig hefur fangelsið fengið efni og föndurvörur frá fyrirtækjum.

Samkvæmt Auði hefur fangelsinu á Hólmsheiði gengið frekar illa að fá verkefni fyrir fangana og þess vegna var farið af stað með handverkið. Að selja vörur beint úr fangelsinu. Hún segir miklu máli skipta að fangar séu virkir og eru þeir hvattir til að taka þátt. „Þetta hefur heilmikla þýðingu fyrir þau, að hafa eitthvað fyrir stafni í stað þess að hanga inni í klefa og bíða eftir að tíminn líði. Sjálfstraustið og sjálfsmyndin eflist og þau fá tækifæri til að nýta hæfileikana,“ segir hún. Einnig að það hjálpi þeim þegar þau koma út í samfélagið aftur.

Þó að vefverslunin sjálf sé ekki farin í loftið segir Auður að lítið mál sé að nálgast vörurnar strax og bendir áhugasömum á netfangið sitt audur@fangelsi.is. Hún geti einnig svarað spurningum um verkefnið og vörurnar.

Fangelsið á Hólmsheiði var tekið í notkun árið 2016 og var áhersla lögð á mannúðlega hönnun við byggingu þess. Alls eru átta deildir í fangelsinu. Á Hólmsheiði er langtímavistun fyrir konur og skammtímavistun og gæsluvarðhald fyrir karla. Auk handverksins starfa fangar einnig við samsetningar, pökkun, viðhald og getað stundað nám.