Í dag hefst útboð fyrir fyrstu 108 íbúðirnar á sementsreitnum svokallaða á Akranesi. Til stendur að reisa þar samtals 400 íbúðir ásamt þjónustuhúsnæði.

Hér má sjá íbúðirnar sem eiga að rísa á lóðinni sem fer í útboð í dag.
Aðsend mynd.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir reitinn líklega þann eftirsóttasta á suðvesturhorni landsins. „Það er alveg gríðarlegur áhugi verktaka á reitnum. Loksins eftir margra ára ferli á að gefa mönnum færi á að bjóða í reitinn,“ segir hann. „Þetta er upphafið á töluverðri sókn hjá okkur á Akranesi í því að bjóða fram mikið magn af lóðum.“

Auk þeirra 400 íbúða sem til stendur að reisa á sementsreitnum stendur til að reisa 200 íbúðir á Dalbrautarreit og um 670 íbúðir sem bætast við í Skógarhverfi.

Loftmynd af svæðinu í dag.
Hér má sjá tölvuteikningu af byggðinni sem á að rísa.
Aðsend mynd.

„Við erum að koma inn með lóðir fyrir 1.270 íbúðir, sem núna og á næstu misserum er ætlað að mæta eftirspurn á uppbyggingu á suðvesturhorninu,“ segir hann, nú þegar eru um 500 íbúðir í byggingu.

Sævar segir að farin verði önnur leið í þessu útboði, verðið muni aðeins gilda 60 prósent þegar kemur að vali á verktaka, verður einnig litið til uppbyggingartíma og frágangs.

Til stendur að hafa þjónustu á reitnum.
Aðsend mynd.

„Þetta er einstakur reitur. Þetta er nálægt miðbæ, nálægt höfn, nálægt gullfallegri strönd, Guðlaugu, heitu lauginni við Langasandinn, þetta snýr til suðurs og allir með útsýni út á haf.“

Þá skipta innviðir einnig máli, reisa á leikskóla og stækka grunnskóla.