Vef­síðan Bjor­land.is opnaði í dag fyrir netverslun og heim­sendingu á bjór frá helstu hand­verks­brugg­húsum landsins.

„Eins og við sjáum þetta þá eru þessar vörur faktískt bara jafn­vígar öðrum vörum og ættu að fá að vera í sölu eins og annað. Við á­kváðum bara að taka boltann,“ segir Þór­gnýr Thor­odd­sen, rekstrar­aðili Bjór­lands í sam­tali við Frétta­blaðið.

Lög á Ís­landi hafa hingað til meinað innlendum aðilum að stunda net­verslun með á­fengi en lengi hefur verið hægt að fá á­fengi sent heim að dyrum frá er­lendum vef­síðum.

„Við erum ekkert að gera þetta sér­stak­lega í mót­mæla­skyni. Við erum að gera þetta því það er eðli­legast í heimi að þessi þjónusta er boðin. Þessi mál hafa verið að færast hægt í gegnum tíðina. Brugg­húsin og stóru heild­salarnir hafa of miklu að tapa til að geta tekið svona slag, bæði vegna yfir­byggingar, búnaðar­kaupa og annað slíkt. Þannig við sáum þetta sem á­kveðið á­byrgðar­mál fyrir okkur að taka boltann,“ segir Þór­gnýr.

Dóms­mála­ráð­herra lagði fram drög að frum­varpi til að þess að hleypa inn­lendum aðilum inn á markaðinn en Þór­gnýr telur ó­lík­legt að frum­varpið nái inn á Al­þingi. „Í greinar­gerðinni sem fylgir þessum frum­varps­drögum má alveg skilja það svo að ríkið sé að viður­kenna sök í þessu máli,“ segir Þór­gnýr sem segir einnig ó­lík­legt að sam­staða sé um málið innan ríkis­stjórnarinnar.

Skjáskot af heimasíðu Bjórlands

Bjóða upp á fyrir­tækja­- og veislu­þjónustu

Vöru­úr­valið á Bjór­land er fjöl­breytt en boðið er upp á „drykkjar­vörur“ frá öllum helstu hand­verks­brugg­húsum Ís­lands, segir Þór­gnýr. „Við erum með flest brugg­hús sem eru Kaldi og minna, sam­kvæmt skil­greiningu Sam­taka ís­lenskra hand­verks­brugg­húsa,“ segir Þór­gnýr.

Bjór­land.is býður einnig upp á fyrir­tækja­- og veislu­þjónustu.

„Við erum nú þegar með nokkur kaffi­hús og veitinga­staði sem eru fá hjá okkur dælur og kúta. Það er hægt að hafa sam­band við okkur og við reddum málunum,“ segir hann að lokum