Í tuttugu ár, eða allt frá 1989 og til ársins 2008, starfaði Hervör, í samvinnu við Reykjavíkurborg, við úrræði fyrir börn sem voru í meðferð hjá barnavernd. Börnin voru á aldrinum 15 til 17 ára.

„Börnin komu úr félagslega erfiðum aðstæðum. Við fórum í hverri ferð með níu krakka á Strandir og Hornstrandir og vorum í hálfan mánuð. Við sváfum í tjaldi og gengum 120 kílómetra með þeim. Þetta var tækifæri fyrir þau til að skoða hvað þau voru að gera og hvaða aðrar leiðir þau gátu valið í lífinu til að ná þeim árangri sem við flest viljum ná til að verða hamingjusöm,“ segir Hervör Alma.

Hún segir að útiveran hafi haft margþættan tilgang.

„Að ná þeim úr þessu daglega amstri, sem var kannski veruleiki sem þau voru vön að flýja. Þau áttu að mæta í úrræði hér í Reykjavík, en voru flúin daginn eftir. En að fara með þau út í óbyggðir gerði okkur kleift að tengjast þeim sterkari böndum og hafa þau hjá okkur og vinna þessa vinnu sem var svo mikilvægt að vinna,“ segir Hervör Alma.
Hún segir að rannsóknir þeirra sýni að meðferðin hafi skilað góðum árangri. Börnin lærðu betur að takast á við lífið og treysta fullorðnum.

„Þeim var sýnt fram á að þau gátu beðið um hjálp og fengið aðstoð.“

Úrræðið var lagt niður í hruninu og segir Hervör Alma að henni þyki mikill missir að úrræðinu. Þó hafi verið skrifuð bók um það þar sem vel er farið yfir áhrif og árangur úrræðisins. Hervör Alma nýtir einnig hvert tækifæri í kennslu, við bæði Félagsráðgjafardeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, til að kenna nemendum sínum að nýta útiveru og ferðalög til meðferðar og kennslu.

Í félagsráðgjöf sé hún til dæmis með kúrs þar sem fjallað er um hópstarf og hópmeðferð þar sem náttúran er nýtt.

„Ólík nálgun hentar ólíku fólki. Það hentar ekki öllum að vera úti, en það hentar öðrum mjög vel. Við leiðum líkur að því að bæði andleg og félagsleg áhrif náttúrunnar séu afskaplega jákvæð. Við erum sannfærð um að þessi heilandi náttúra gefi þér tækifæri til að tengjast sjálfum þér og kynnast sjálfum þér,“ segir Hervör.

Hún segir að í raun gildi það sama þegar fólk fer til útlanda eða í annars konar ferðalög, en á annan hátt.

„Þegar fólk fer úr amstri dagsins, það er alltaf þroskandi fyrir okkur ef við hugsum um það þannig. Að dvelja í náttúrunni er þó annað en að heimsækja hana. Að dvelja í náttúrunni í einhvern ákveðinn tíma, að heiman, þar sem þú ert að takast á við öfl náttúrunnar, getur haft mjög styrkjandi áhrif á þig sem manneskju. Við vitum öll að náttúran er sterkari okkur, en stundum trúum við því ekki fyrr en við höfum dvalið í henni. Við þurfum að lúta í lægra haldi og bera virðingu fyrir henni. Ég held að náttúran skapi ótrúleg tækifæri til að líta inn á við og tengjast sjálfum sér,“ segir Hervör.

Hún segir að á Menntavísindasviði sé meiri áhersla lögð á hvernig hægt sé að nýta náttúruna til kennslu. Hún segir að rannsóknir bendi til þess að oft sé það fagfólkið sem er tregara til að fara út en þau sem kennt er. Sama hvort um ræðir börn eða fullorðna.

„Það er svo þægilegt að vera inni. Að vera úti er mörgum hreinlega ókunnugt. Hér á Íslandi finnst okkur það erfitt. Það eru ríkari hefðir fyrir útiveru í til dæmis Noregi, þó að þar geti veðrið verið alls konar. Þess vegna finnst mér það mikilvægt, hjá okkur sem erum fagmenn, að fara út og opna þennan glugga að veröldinni sem er svo vannýttur,“ segir Hervör.