Rótgróna spilaverslunin Spilavinir hefur nú gengið skrefinu lengra í spilamennskunni og opnað fyrsta alvöru spilakaffihús Íslands í húsakynnum sínum við Suðurlandsbraut. „Við erum enn að fikra okkur áfram og höfum ekki haldið neina opnunarhátíð enn út af ástandinu,“ segir Svanhildur Eva Stefánsdóttir, annar eigenda Spilavina.

Spilakaffihús er líkt og nafnið gefur til kynna kaffihús þar sem má spreyta sig á hinum ýmsu spilum. Hjá Spilavinum er hægt að velja úr yfir tvö þúsund titlum. Einnig er boðið er upp á leiðsögn og ráðleggingar fagmanna. „Þannig að enginn lendi í þeirri stöðu að vita ekki hvað á að gera,“ segir Svanhildur.

Kaffihús í þessu formi hafa notið mikilla vinsælda erlendis síðastliðinn áratug og hafa viðskiptavinir Spilavina lengi kallað eftir því að eigendurnir færi út kvíarnar.

„Við erum alltaf að vinna í óskum viðskiptavina svo núna bjóðum við upp á kaffi, spil og með því,“ segir Svanhildur. Ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af nálægðartakmörkunum. „Við erum með tvær stofur í boði svo það er hægt að vera sitt í hvoru herberginu að spila eða drekka kaffi.“

Covid kenndi fólki að spila

Síðan kórónaveirufaraldurinn hófst hefur orðið gríðarleg aukning í sölu hjá Spilavinum enda hefur spilamennska haslað sér völl í auknum mæli á árinu. „Fólk fór að sækja í eitthvað að gera heima við um leið og þetta ástand kom upp,“ segir Svanhildur.

Neyslumynstur viðskiptavina breytist í takt við faraldurinn. „Þegar fyrsta bylgja hófst seldust barnaspil eins og heitar lummur til foreldra með börnin heima við,“ segir Svanhildur. Einnig hafi borið á því að fólk í sóttkví keypti púsluspil.

„Fólk sem hafði aldrei púslað var farið að taka þátt í umræðu um hvaða myndir væri skemmtilegast að púsla,“ ítrekar Svanhildur hlessa.

Í seinni bylgjunni sé augljóst að partíljón þyrsti í aukna afþreyingu. „Með skertu skemmtanahaldi er fólk frekar að skemmta sér í heimahúsum,“ segir hún. Partíspilin hafi því rokið út í seinni hluta sumarsins.

„Það er svo gaman þegar fólk sem hefur aldrei komist í kynni við þessi áhugamál, eða ástríðu hjá mér, fer að prófa þetta og smita aðra af áhuganum,“ segir Svanhildur sem veit fátt betra. „Það er þó langt frá því að vera skylda að spila á kaffihúsinu og er öllum velkomið að líta við og dreypa á góðum kaffibolla.“