Öll ríki Banda­ríkjanna bjóða nú öllum ein­stak­lingum 16 ára eða eldri upp á bólu­setningu en fimm ríki, Hawa­ii, Massachusetts, New Jer­s­ey, Oregon, R­hode Is­land og Ver­mont, slógust í gær í hóp ríkjanna sem hafa opnað fyrir bólu­setningar síðast­liðnar vikur. Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hefur nú hvatt alla til að fara í bólu­setningu.

Það gæti þó verið nokkur bið á bólu­setningu þrátt fyrir að fólk geti nú beðið um það þar sem fjöl­mörg ríki eiga enn eftir að bólu­setja við­kvæma og eldri ein­stak­linga. Ekki eru allir sáttir við það að opnað sé fyrir bólu­setningu hjá öllum þar sem fólk þarf þá að keppast um skammtana og því gætu við­kvæmari ein­staklingar orðið eftir.

Biden lýsti því upp­runa­lega yfir að allir full­orðnir ein­staklingar gætu óskað eftir bólu­setningu frá og með 1. maí en fyrr í mánuðinum flýtti hann frestinum til 19. apríl. Þá hefur Biden náð mark­miði sínu um að 200 milljón skammtar af bólu­efni gegn CO­VID-19 verði gefnir á fyrstu 100 dögum sínum í em­bætti.

40 prósent fengið að minnsta kosti einn skammt

Að því er kemur fram á vef Sótt­varna­stofnunar Banda­ríkjanna, CDC, hafa tæp­lega 212 milljón skammtar af bólu­efni verið gefnir í Banda­ríkjunum og hafa þar með um það bil 40 prósent þjóðarinnar fengið að minnsta kosti einn skammt af bólu­efni. Þá hafa um 25,7 prósent verið full­bólu­settir.

Þrjú bólu­efni hafa fengið neyðar­heimild í Banda­ríkjunum, bólu­efni Pfizer og BioN­Tech, bólu­efni Moderna, og bólu­efni Jans­sen. Bólu­efni Jans­sen hefur þó verið sett á bið meðan verið er að rann­saka mögu­legar auka­verkanir sem fela í sér myndun blóð­tappa.

Pfizer hefur enn fremur óskað eftir því að Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna, FDA, út­víkki neyðar­heimild bólu­efnisins þannig hægt sé að nota það hjá börnum 15 ára og yngri en bráða­birgða­niður­stöður úr klínískum rann­sóknum virðast sýna að virkni bólu­efnisins sé mikil hjá börnum. Mögu­lega verður því hægt að bólu­setja börn á haust­mánuðum 2021.