Sótt­varna­húsið við Rauðarárstíg er nú nánast orðið yfir­fullt vegna hælis­leit­enda sem hafa komið til landsins undan­farnar vikur og þurft að dveljast þar. Annað sótt­varnahús á að opna í Reykjavík á næstu dögum. Þetta kom fram í kvöld­fréttum RÚV.

„Við vorum undir­búin en það kom okkur samt sem áður svo­lítið á ó­vart hversu fljótt fólk var að koma til okkar. Það eru fleiri búnir að vera hjá okkur núna en allt tíma­bilið siðast, alla þá þrjá mánuði. Ætli þetta séu ekki hátt í hundrað manns sem hafa verið að koma til okkar inn og út. Það er mikið meira en það var síðast,“ sagði Gylfi Þór Þor­steins­son, um­sjónar­maður sótt­varnahúsa, í frétta­tímanum.

Hælisleitendur þurfa að fara í fimm daga sóttkví

Í sótt­varnahúsinu við Rauðar­ár­stíg dvelja nú um fimm­tíu manns en þó eru að­eins tveir þeirra með Co­vid-19. Hinir sem þar dvelja eru um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd sem hafa komið hingað til lands eftir að landa­mærin opnuðu.

Fólkið fer í skimun við komuna til landsins en þarf síðan að dvelja í sótt­varnahúsinu í um fimm daga. Þá fer það aftur í skimun fyrir veirunni og reynist það ekki með smit er það flutt í úr­ræði á vegum Út­lendinga­stofnunar.

Sótt­varnahúsið við Rauðar­ár­stíg.
Fréttablaðið/Ernir

„Þetta fólk er að koma hvaða­næva að úr heiminum. Frá löndum sem eru annað hvort í stríði eða búa við mikla fá­tækt. Þetta fólk hefur upp­lifað mikla erfið­leika og er bara að leita að skjóli fyrir sig og sínar fjöl­skyldur,“ sagði Gylfi.

„Við náðum sem betur fer að fá niður­stöður úr seinni skimun hjá fimm­tán ein­stak­lingum sem gátu þá farið í gær þannig að það hjálpaði mikið því að það hefur verið að koma fólk í dag líka. Þannig að við vorum kannski við á­kveðin þol­mörk í gær en sem betur fer losnaði að­eins um.“

Þá var greint frá því að til stæði að opna nýtt sótt­varnahús í Reykja­vík á næstu dögum. „Vonandi getum við nú bara klárað það á næstu dögum en við erum að sjálf­sögðu á­vallt við­búin og erum alltaf að hugsa fram í tímann þannig að við erum með nokkur úr­ræði í huga,“ sagði Gylfi.