Soroptimistaklúbbur Suðurlands hyggst hefja rekstur úrræðis fyrir þolendur kyndbundins ofbeldis í landshlutanum undir nafninu Sigurhæðir.

Klúbburinn óskar liðsinnis sveitarfélaga á svæðinu og hefur þegar fengið jákvæðar undirtektir frá sumum þeirra, meðal annars frá Árborg sem leggja mun til húsnæði á Selfossi. Stefnir Árborg að því að verkefnið verði á fjárhagsáætlun sinni á næsta ári.

Í bréfi Hildar Jónsdóttur, verkefnisstjóra Sigurhæða, til sveitarfélaganna segir að óskað sé eftir samstarfi við öll sveitarfélögin til frambúðar.

„Ekki [er] ástæða til að ætla að þörfin fyrir þjónustu af þessu tagi sé önnur hér á Suðurlandi en gerist annar staðar á landinu eða í nágrannalöndunum,“ segir í minnisblaði sem tekið var saman af Ragnheiði Hergeirsdóttur, forstöðumanni Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, eftir samtal hennar við Hildi.

Í minnisblaðinu segir Ragnheiður hugmyndina vera þá að um sé að ræða tilraunaverkefni til tveggja til þriggja ára sem Soroptimistar, sem séu grasrótarsamtök, haldi utan um. Samtök hafi „frjálsari hendur“ sem málsvari verkefnis af þessu tagi en stofnanir en sterkast sé að allir aðilar vinni þetta saman.

Þá kemur fram að leitað hafi verið samstarfs við Háskóla Íslands til að framkvæma símat á meðan tilraunin stendur yfir. „Niðurstöður símats muni liggja til grundvallar ákvörðun um hvort og með hvaða hætti verkefninu verði fram haldið að loknu tímabilinu,“ segir í minnisblaðinu.

„Við erum alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi,“ segir á vef Soroptimsta um samtökin.