Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður Skírnis, segist eiga von á því að sættir verði reyndar áður en málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.

Skírnir hefur stefnt bæði Þjóðkirkjunni og séra Agnesi Sigurðardóttur biskupi Íslands.

Krafa Skírnis er tæpar 10 milljónir króna, annars vegar vegna fjártjóns og hins vegar miskabótakrafa. „Skírnir lítur svo á að honum hafi verið vikið úr starfi með ólögmætum hætti,“ segir Sigurður Kári.

Skírni var tilkynnt um þjónustulok eftir að hann sagði Gylfa Ólafssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, frá afskiptum sínum af konu í bakvarðasveit sem grunuð var um að villa á sér heimildir og sagði frá þessu í viðtali við Vísi. Skírnir hefur sagt hana hafa beitt svikum til að fá fjárhagsaðstoð úr líknarsjóði Lágafellskirkju í Mosfellsbæ þegar hann var þar prestur. Taldi Skírnir þetta öryggismál enda var þá fyrsta bylgja faraldursins að ganga yfir landið.

Þjóðkirkjan taldi Skírni með þessu hafa rofið trúnaðarskyldu sína gagnvart skjólstæðingi. Hana bæri einungis að rjúfa ef um væri að ræða saknæmt mál gagnvart barni eða ungmenni.