„Þegar allt kemur til alls þá var þetta opinbert fólk, á opinberum stað að tala opinbert mál. Það er augljóst miðað við umræðu sem eftir fylgdi að þetta var eitthvað sem átti erindi við almenning.“ segir Bára Halldórsdóttir uppljóstrari í samtali við Fréttablaðið og bætir við að hún taldi sig bera skyldu sem þjóðfélagsþegn að koma upplýsingunum á framfæri til almennings. Hún hafi frá upphafi lagt áherslu á að hún myndi una niðurstöðu Persónuverndar hver sem hún yrði.

Þá hafi þingmenn Miðflokksins farið fram á 100.000 króna sekt sem Persónuvernd féllst ekki á.

„Þegar litið er til alls framangreinds, einkum tilgangs vinnslunnar og kringumstæðna að öðru leyti, eru ekki efni að mati Persónuverndar til að taka afstöðu af eða á til réttmætis áðurnefndra skýringa,“ segir í niðurstöðu Persónuverndar.

Borgaraleg skylda að koma upptökunum á framfæri

„Hún sé nokkuð hvatvís of hafi því ákveðið að hefja upptöku til eigin nota til að geta betur glöggvað sig á orðfæri þingmannanna. Eftir því sem á hafi liðið hafi henni hins vegar þótt umræðuefnin verða alvarlegri. Því hafi hún ákveðið að halda upptökunum áfram og eftir nokkurra daga umhugsun og vangaveltur um siðferðisleg álitaefni málsins hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að það væri borgaraleg skylda hennar að koma hljóðupptökunni á framfæri við fjölmiðla þannig að þeir gætu upplýst almenning um þá hluta samtals þingmannanna sem þeir mætu svo að ættu erindi við almenning,“ kemur fram í skýrslu málsmeðferðar Persónuverndar.

Snerti hana beint

Í málsferðinni kemur fram að Bára taldi umræðuefni Klaustursmanna hafi snert hana beint þar sem hún tilheyrði þeim þjóðfélagshópum sem komu við sögu í samtölunum. Þá hafi Bára litið til þess að þátttakendur í samtalinu hafi ráðið miklu um stöðu hennar sem öryrkja. Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins, gerðu grín að Freyju Haraldsdóttur í samtali sínu á barnum Klaustur í síðustu viku. Einn þeirra líkti eftir hljóði úr sel, þegar hún var til umræðu.

Klaustursmenn deili ábyrgðinni á lengd upptökunnar

Persónuvernd gerði athugasemd við lengd upptökunnar og felldi hana þar af leiðandi undir ákvæði um rafræna vöktum, sem leiðir til þess að upptakan hafi brotið gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Báru er gert að eyða upptökunni, sem hún fellst á að gera. Halldór Auðar Svansson birti yfirlýsingu fyrir hönd Báru á Facebook síðunni Takk Bára í gær um lengd upptökunnar.

„Sú spurning vaknar hins vegar hvort að Klausturþingmenn verði ekki að deila ábyrgðinni á lengd upptökunnar með Báru, enda tók það þá töluverðan tíma að fara yfir ýmis mikilvæg atriði á borð við níðyrði um vinnufélaga sína, samferðafólk sitt og hina og þessa minnihlutahópa.“

Samræður þingmannanna hafa orðið tilefni mikillar umræðu í samfélaginu um háttsemi þjóðkjörinna fulltrúa. Ákvörðun Persónuverndar leiddi í ljós að ekki var um samverknað að ræða í máli Báru.