Fimmtíu og þrjú prósent landsmanna eru ánægð með styttingu vinnuvikunnar á sínum vinnustað, samkvæmt könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Nokkuð jafnt hlutfall er milli þeirra sem segjast mjög ánægð og þeirra sem segjast frekar ánægð.

Tæpt 21 prósent er hins vegar frekar eða mjög óánægt. Stytting vinnuvikunnar hefur ekki enn verið innleidd á vinnustöðum 21 prósents svarenda.

Athygli vekur að starfsmenn hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, eru mun ánægðari með styttingu vinnuvikunnar en starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Þannig segjast 64 prósent opinberra starfsmanna ánægð með styttingu vinnuvikunnar en aðeins 44 prósent starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Munurinn er sérstaklega mikill á þeim sem segjast mjög ánægð, 40 prósent opinberra starfsmanna samanborið við 19 prósent starfsmanna í einkageiranum.

Halldóra Sveinsdóttir hjá Starfsgreinasambandinu segir skýringuna á þessum mun vera þá að á almenna vinnumarkaðinum þurfi að semja sérstaklega annars vegar um að vilja fara í styttingu og svo um styttinguna sjálfa. „Styttingin kemur ekki sjálfkrafa inn eins og hjá starfsfólki hins opinbera,“ segir Halldóra.

Ákvæði um styttingu vinnuvikunnar hafa tekið gildi hjá hinu opinbera; fyrst hjá dagvinnufólki um síðustu áramót um fjórar klukkustundir á viku og hjá vaktavinnufólki 1. maí síðastliðinn.

Misjafnlega hefur gengið að útfæra styttinguna meðal vaktavinnufólks og hafa nokkrar starfsstéttir lýst mikilli óánægju með útfærsluna.

Minnst eitt mál er nú rekið fyrir félagsdómi vegna ágreinings um neysluhlé sem lagt er til að verði dregið frá styttingunni fyrir vaktavinnufólk, með þeim afleiðingum að hin raunverulega stytting myndi aðeins nema rúmum klukkutíma en þrír klukkutímar færu í skilgreind neysluhlé. Halldóra segir styttingu vinnuvikunnar hafa ruglað marga í ríminu og að margir hafi haldið að hún kæmi sjálfkrafa inn.

„Það er eins og þetta sé aðeins að vakna núna á almenna markaðinum eftir að opinberi geirinn er komið með þetta,“ segir Halldóra og bætir við: „Við erum að fá meira af fyrirspurnum. Fólk sem vill fara að semja á sínum vinnustöðum og óskar eftir aðstoð okkar við það.“

Konur eru mun ánægðari með styttingu vinnuvikunnar en karlar en þær lýsa ánægju sinni í 62 prósentum tilvika meðan karlar segjast ánægðir í 45 prósentum tilvika.

Ánægja með styttingu vinnuvikunnar eykst jafnt og þétt eftir því sem menntunarstig svarenda hækkar, fyrir utan þá sem mesta menntun hafa, framhaldspróf á háskólastigi, þar sem flestir svarenda taka ekki afstöðu eða svara hvorki né.

Lítill munur er á afstöðu fólks eftir launastigi, en þau sem lægstu launin hafa eru þó líklegust til að vera óánægð með útfærslu á sínum vinnustað.Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru einnig ívið ánægðari en íbúar á landsbyggðinni og gæti fjöldi starfa hjá hinu opinbera á höfuðborgarsvæðinu skýrt þann mun.

Könnunin var send á könnunarhóp Prósents og svartími var frá 15. til 23. júlí. Í hópnum voru 2.600 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri, og voru svör þeirra vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Svarhlutfall var 52 prósent.