„Fullyrðingar SA um að krafa okkar sé 60 til 85% á öll laun er svo fjarstæðukenndur áróður að hann er varla svaraverður en hlýtur að opinbera sturlað viðhorf viðsemjenda okkar til kröfugerðarinnar og stöðunar á vinnumarkaði.“

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á Facebook. Hann bendir á að tilboð Samtaka atvinnulífsins til félagsmanna VR feli í sér 15 þúsund króna launahækkun á laun undir 600 þúsund krónur og 2,5% á laun umfram það. Þá verði sérstök fimm þúsund króna hækkun á lægstu taxta, sem í dag eru 270 þúsund krónur.

Sjá einnig: Laun myndu hækka um allt að 85%

Ragnar bendir á að verðbólguspá fyrir árið sé 3,4-3,6%. 2,5% hækkun laun í 3,5% verðbólgu feli í sér kaupmáttarrýrnun. Það sé ekki ábyrg nálgun í kjaraviðræðum. Hann bendir á að 15 þúsund króna hækkun á laun umfram 600 þúsund krónur þýði 8.975 krónur útborgað. Á sama tíma séu leigufélögin byrjuð að hækka leigu um tugi þúsunda. Það eitt núlli út boð SA og rúmlega það.

Ragnar Þór rekur að á meðan Samtök atvinnulífsins vilji nálgast málin af meiri ábyrgð - og bjóða félagsmönnum VR 2,5% launahækkun - hafi bankastjóri Landsbankans hækkað um 82% í launum og Alþingis- og embættismenn um 45%. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins muni hækka um 90 þúsund kónur á mánuði samkvæmt framlögðu tilboði þeirra.

„Í kröfugerð VR er sama krónutöluhækkun á alla og að lægstu laun hækki úr 300.000 kr. Í 425.000 kr á mánuði á þremur árum.“ Hann segir að fullyrðingar Samtaka atvinnulífsins um 60-85% launahækkun á öll laun sé fjarstæðukenndur áróður.