Lokað þing­hald er al­ger megin­regla í kyn­ferðis­brota­málum hér á landi. Tvær undan­tekningar hafa orðið á þessu nú, með frekar stuttu milli­bili.

Fyrir helgina fór fram aðal­með­ferð í nauðgunar­máli gegn Jóhannesi Tryggva Svein­björns­syni, sem á­kærður er fyrir nauðgun. Þá var í haust opið þing­hald í máli Jóns Bald­vins Hannibals­sonar, fyrr­verandi ráð­herra, sem á­kærður var fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni.

Brota­þolinn í fyrr­nefnda málinu, Ragn­hildur Eik Árna­dóttir, segist hafa þurft að láta taka það sér­stak­lega fram fyrir sína hönd að hún óskaði ekki eftir því að þing­hald yrði lokað.

Hefði ekki fengið að vera við­stödd réttar­höldin

„Nú hafði ég sjálf svo sem rætt mitt mál í fjöl­miðlum, en aðal­lega vildi ég gjarnan vera við­stödd málið en ég hefði ekki fengið þann rétt ef þing­haldið hefði verið lokað. Það er þess vegna sem ég fór fram á að þing­haldið væri opið,“ segir hún.

„Aðallega vildi ég gjarnan vera viðstödd málið en ég hefði ekki fengið þann rétt ef þinghaldið hefði verið lokað.“

Ragn­hildur segist ekki viss um hver af­staða hennar hefði verið, hefði hún haft ein­hvern annan mögu­leika til að vera við­stödd aðal­með­ferðina.

Þar sem brota­þoli telst ekki aðili saka­máls gegn meintum geranda hefur brota­þoli ekki frekari réttindi varðandi málið en hver annar al­mennur borgari. Brota­þoli hefur til dæmis ekki rétt til að­gangs að gögnum um málið og ef þing­hald er lokað mætir brota­þoli í dóm­sal til að gefa skýrslu en hefur ekki rétt að öðru leyti til að vera við­staddur réttar­höldin.

Á síðasta kjör­tíma­bili var lagt fram frum­varp sem ætlað var að bæta réttar­stöðu brota­þola en það náði ekki fram að ganga. Frum­varpið er á þing­mála­skrá nýs ráð­herra og stefnt er að fram­lagningu þess nú á vor­þingi.

Mikil­væg að­hald á dóm­stóla

Fleira hangir hins vegar á spýtunni, í huga Ragn­hildar, en að­eins hennar réttur sem brota­þola til að vera við­stödd aðal­með­ferð í málinu sínu. Hún segir regluna um að þing­hald sé háð fyrir opnum tjöldum mikil­væga fyrir allt sam­fé­lagið.

„Jafn­vel þótt það væri þægi­legra fyrir mig að það væru ekki fleiri í salnum, þá finnst mér ekki nægi­leg sam­fé­lags­leg rök fyrir því að loka þing­haldinu í mínu máli,“ segir Ragn­hildur.

Ragnhildur er lög­fræðingur og viður­kennir að þetta sé kannski köld skoðun til­komin vegna menntunar hennar. „En mér finnst þetta alla­vega ekki eins vera eins og þetta á að vera,“ segir hún og bætir við:

„Það skiptir máli fyrir sam­fé­lagið að al­menningur hafi eftir­lit með dóm­stólum, þar á meðal fjöl­miðlar. Þegar máls­með­ferð er lokað al­gjör­lega í heilum mála­flokki þá erum við búin að fjar­lægja allt eftir­lit al­mennings með þeim mála­flokki,“ segir hún og skýrir mál sitt betur:

„Kyn­ferðis­brota­mál hafa verið mikið í um­ræðunni og kannski núna kominn tími á að eitt­hvað geti farið að breytast til batnaðar í þeim málum. Á meðan þing­höld eru lokuð getur þó enginn haft eftir­lit með dóm­stólunum í þessum málum og enginn veit hvað gerist bak við þessar luktu dyr. Ég held þess vegna að það sé til bóta að fjöl­miðlar geti fylgst betur með þessum málum og komist þannig betur inn í þennan mála­flokk.“

Ragnhildur Eik starfar sem lögmaður í Kaupmannahöfn.
Mynd/Helgi Ómarsson

Lokað þing­hald geti við­haldið skömminni

Að­spurð segir Ragn­hildur ekki ó­lík­legt að lokuð þing­höld hafi mögu­lega við­haldið al­mennri skömm brota­þola og óskir þeirra um opið þing­hald geti verið leið til að skila skömminni.

„Þegar ég var að taka á­kvörðun um þetta, með­vituð um að ég gæti ekki bannað fjöl­miðlum að hlusta á það sem ég segði, þá kom ein­mitt upp þessi hugsun: Af hverju á ég að skammast mín fyrir eitt­hvað sem ég varð ekki þess valdandi að kom fyrir mig? Auk þess sem það er auð­veldara að koma fram núna heldur en það var áður,“ segir Ragn­hildur og bætir við: „Það var náttúru­lega allt þaggað niður hér áður og ekki mjög ó­lík­legt, og á­huga­verð kenning að í­huga, hvort þessi sjálf­krafa lokun í þessum málum hafi hrein­lega við­haldið þeirri skömm sem virðist loða við kyn­ferðis­af­brota­mál.“

Öðru­vísi hefð í ná­granna­löndum

Ragn­hildur starfar sem lög­maður í Dan­mörku og þessi al­gera regla um lokað þing­hald hér kemur henni undar­lega fyrir sjónir. „Þetta myndi ekki teljast heimilt í Dan­mörku, þar þarf að taka af­stöðu í hvert skipti, sem er þó að sjálf­sögðu stundum gert ef brota­þoli fer fram á það og það eru hald­bær rök fyrir því,“ segir Ragn­hildur.

Þar sé á­herslan á að öll þing­höld skulu vera í heyranda hljóði og þegar af­staða er tekin til þess hvort loka þurfi þing­haldi þá sé fyrst kannað hvort sé nóg að loka bara á­kveðnum hluta, til dæmis þegar ein­hver, eins og til dæmis brota­þoli, sé að gefa skýrslu. Þá sé einnig heimild í Dan­mörku til að mæla fyrir um nafn­leynd, jafn­vel þótt þing­haldið sé form­lega opið.

„Aðal­at­riðið er að þar er litið á lokað þing­hald sem undan­tekningar­reglu. En hún virðist vera al­ger megin­regla í þessum mála­flokki hér.“

Kolbrún Benediktsdóttir, vararíkissaksóknari segir viðhorfin vera að breytasts.
Fréttablaðið/Anton Brink

Kol­brún Bene­dikts­dóttir, vara­héraðs­sak­sóknari tekur undir með Ragn­hildi að leyndar­hjúpurinn um þennan mála­flokk geti valdið erfið­leikum.

„Við sem störfum í kerfinu getum að­eins tjáð okkur á al­mennu nótunum en ekki talað okkur um ein­staka mál. Skrif­legir dómar eiga auð­vitað að endur­spegla það.“

Kol­brún segir að á­kveðin hefð hafi myndast á Ís­landi að hafa lokað þing­hald í kyn­ferðis­brota­málum, en henni skilst að slík mál séu mun oftar háð fyrir opnum tjöldum hjá ná­granna­löndum okkar.

„Þetta er ekki jafn mikið tabú og við erum farin að tala opin­skátt um kyn­ferðis­brot.“

Spurð um á­stæður þess að við gætum séð fleiri til­vik opinna þing­halda í kyn­ferðis­brota­málum segir Kol­brún:

„Fyrst og fremst er breytt við­horf til kyn­ferðis­brota al­mennt. Þetta er ekki jafn tabú og við erum farin að tala opin­skátt um kyn­ferðis­brot. Þegar þing­hald er lokið geta brota­þolar ekki fylgst með réttar­höldum eftir að hafa gefið skýrslu.“

Þá vísar Kol­brún einnig til frum­varpsins sem Ragn­hildur nefndi sem myndi bæta réttar­stöðu brota­þola, bæði hvað varðar rétt til að vera við­stödd þing­hald og um að­gang að gögnum.